Orkumálinn 2024

„Kjósendur Sósíalistaflokksins voru hvattir til að skila rauðu, það er hægt að skilja bókstaflega“

Mikilvægt getur verið að stjórnmálaflokkar sendi öfluga umboðsmenn sína til að vera viðstaddir talningu atkvæða í Alþingiskosningum. Jóhanni Ólafi Sveinbjarnarsyni, umboðsmanni Sósíalistaflokks Íslands í Norðausturkjördæmi, tókst að breyta einu vafaatkvæði í gilt atkvæði fyrir flokk sinn og tvö til viðbótar voru send til dómsmálaráðuneytisins vegna ágreinings.


Vafaatkvæði í Norðausturkjördæmi voru átta talsins og voru þrjú þeirra dæmd gild, tvö ógild og gerði Jóhann Ólafur, umboðsmaður Sósíalistaflokks Íslands ágreining um þrjú. Yfirkjörstjórn fundaði tvisvar um nóttina til að leysa úr vafaatkvæði. Í fyrra skiptið hafði atkvæðaseðill sem búið var að fylla upp í reit fyrir framan listabókstaf Sósíalistaflokksins J með rauðum penna dæmdur ógildur þar sem með slíku er hægt að gera atkvæði auðkennanlegt. Jóhann andmælti því með eftirfarandi rökum: „Að dæma ógilt þar eð rauður penni er notaður í stað blýants er ómálefnalegt því að hræðsla við Covid getur ýtt fólki til þess að nota eigin skriffæri“, „Að nota rauðan penna í stað blýants getur ekki talist vera af ásettu ráði til að auðkenna seðil“ og „Kjósendur Sósíalistaflokksins voru hvattir til að skila rauðu, það er hægt að skilja bókstaflega.“ Eftir rökfærslu Jóhanns var seðilinn dæmdur gildur.


Jóhann Ólafur gerði ágreining um tvö utankjörfundaratkvæði. Í öðru þeirra var listabókstafurinn J stimplaður á seðilinn en með penna stóð „Auður.“ Jóhann taldi að slíkt atkvæði gæti ekki reynst vera ógilt þar sem Auður Traustadóttir situr í sjötta sæti framboðslista Sósíalistaflokksins í NA-kjördæmi. Á hinum var rithönd sem talningarfólk gat ómögulega greint hvort væri F eða J. Taldi Jóhann að um J væri að ræða og vísaði í að oft getur reynst erfitt að greina á milli D og O en oftast hægt að sannfæra sig um hvorn listabókastafinn er að ræða. Þessi ágreiningur var ekki leystur um helgina og var atkvæðunum komið fyrir í umslögum og sendir dómsmálaráðuneytinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.