Orkumálinn 2024

Körfubolti: Toppslagurinn tapaðist á einu stigi

Höttur tapaði sínum fyrsta leik í fyrstu deild karla í körfuknattleik í vetur þegar liðið lá fyrir Haukum 90-89 á Ásvöllum á föstudagskvöld. Liðin eru nú jöfn á toppi deildarinnar.

Jafnt var á öllum tölum í leiknum og forustan alltaf naum, á hvorn veginn sem hún var. Höttur fór betur af stað og var 21-24 yfir eftir fyrsta leikhluta.

Haukar tóku rispu um miðjan annan leikhluta, þær tvær mínútur sem Bandaríkjamaðurinn Tim Guers var hvíldur hjá Hetti og breyttu stöðunni úr 29-33 í 35-33. Í hálfleik var þó orðið jafnt, 47-47.

Höttur skoraði fyrstu sex stigin í þriðja leikhluta, síðan svöruðu Haukar en Höttur var yfir 65-67 þegar leikhlutanum lauk.

Þá var komið að Haukum. Fyrst náðu þeir fjögurra stiga forskoti, sem Höttur minnkaði niður í eitt áður en það jókst aftur upp í fimm.

Í stöðunni 88-86 hafði Höttur boltann en náði góðu skotfæri. Haukar náðu boltanum, Hattarmenn brutu og Hafnfirðingar nýttu bæði vítin sem þeir fengu. Guers setti niður þriggja stiga körfu strax en þá voru aðeins tvær sekúndur eftir, sem var of stutt. Hann var stigahæstur Hattarmanna með 25 stig.

Haukar og Höttur deila nú toppsætinu, hvort lið hefur 16 stig og aðeins tapað einu sinni í vetur. Höttur spilar næst heimaleik gegn Fjölni á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.