Kolmunni: Óþverrafiskur sem varð að verðmætum

Um fimmtíu ár eru síðan Íslendingar byrjuðu að gera alvöru tilraunir með að veiða kolmunna þegar Síldarvinnslan í Neskaupstað keypti nótaskipið Börk gagngert til veiðanna. Tilraunin varð ekki langlíf en bætt tækni lífgaði veiðarnar við að nýju um miðjan tíunda áratuginn.

„Kolmunninn þótti óþverrafiskur. Á síldarárunum var stundum kastað á hann og þá sat hann fastur í nótinni þannig að menn voru lengi að berja úr henni,“ segir Smári Geirsson, sagnfræðingur í Neskaupstað.

Þegar Íslendingar komu til sögunnar höfðu aðrar þjóðir veitt drjúgt af kolmunna í Norður-Atlantshafi. Árið 1973 keypti Síldarvinnslan nótaskipið Börk gagngert til að veiða kolmunna en veiðar á fiskinum höfðu hafist í litlum mæli árið áður. Berki gekk illa þetta ár og í kjölfarið varð hlé á veiðum fram til ársins 1976.

Á þessum tíma veiddu skipin mest úti fyrir Austfjörðum á sumrin, meðal annars við Héraðsflóann en einnig í Seyðisfjarðardýpi. Þá var haldið til veiða á alþjóðleg hafsvæði, en rétt eins og nú, var töluvert veitt í færeyskri lögsögu.

Í sjómannablaðinu Ægi árið 1979 skrifar Magni Kristjánsson, skipstjóri í Neskaupstað, ítarlegra grein þar sem hann rekur bæði forsendur fyrir kolmunnaveiði Íslands og þá möguleika sem hann telur í henni fólgna. Það bar þó ekki árangur. „Þetta gekk áfram frekar treglega. Skipin hentuðu ekki og afurðaverðið var lágt. Í lok vertíðar 1982 var ljóst að ekki yrði haldið áfram,“ segir Smári.

Kælibúnaður breytir stöðunni


Straumhvörf verða á ný þegar Síldarvinnslan fær Beiti eftir endurbætur árið 1995. „Hann sýnir loks að Íslendingar geti virkilega veitt kolmunna. Skipið var orðið mun kröftugra og með öflugan búnað til að kæla aflann.

Kolmunninn er vandmeðfarinn fiskur og það var lengst af vandamálið. Fiskurinn sem veiðist í færeyskri lögsögu er oft magur og lítið lýsi í honum. Hann skemmdist því oft í lestum skipanna. Það breyttist með tilkomu kælilesta,“ segir Smári.

Í 60 ára sögu Síldarvinnslunnar, sem Smári tók saman og kom út árið 2017, segir að kolmunnaveiðar hafi verið ágætar hérlendis fram til 2003. Þær hafi síðan minnkað og nánast ekkert verið veitt árið 2011. Síðan hafi kolmunninn náð sér á ný og hann mest verið bræddur.

Mikilvægt að veiða eitthvað í íslensku lögsögunni


Hefðin hérlendis fyrir kolmunnaveiðunum er mest á Austfjörðum sem orðið hefur til þess að Austfirðingar hafa hlotið viðurnefnið „kolmunnaþjóðin.“ Í dag veiða Austfirðingar hann mest á alþjóðlegum hafsvæðum eða í færeysku lögsögunni.

Kolmunni er veiddur allt suður í Biskajaflóa. Hann gengur þaðan til norðurs og er oft vestur af Írlandi um miðjan mars þegar íslensku skipin byrja að sækja í hann að lokinni loðnuvertíð. Jafnvel er farið lengra ef loðnuvertíðin er lítil. Þau elta hann svo áfram norður inn í færeysku lögsöguna.

Veiðin stendur fram undir sjómannadag. Þá verður hlé á henni meðan skipin eru gerð klár til makrílveiða. Smári segir að getgátur séu uppi um að kolmunninn sé snemma á sumrin í íslensku lögsögunni en Tómas Kárason, skipstjóri, bendir á að kolmunninn sé á sama tíma innan lögsögunnar og aðrar tegundir uppsjávarfiska og mikil veiði sé í öðrum tegundum sem gangi fyrir. Fiskurinn gengur síðan til suðurs á haustin og þá grípa íslensku skipin hann.

Kolmunninn er flökkustofn sem ekki hefur verið samið um veiðar á. Mikilvægt er fyrir samningsstöðu Íslendinga að veiða hann innan lögsögunnar til að undirstrika tilkall sitt til hans. Þess vegna klára íslensku skipin aldrei kvóta sinn á vorin.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar