Skip to main content
Við upphaf göngunnar við Vopnafjarðarskóla. Mynd: Sandra Konráðsdóttir

Komu saman á Vopnafirði á kvennafrídaginn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. okt 2025 16:31Uppfært 28. okt 2025 16:32

Á fjórða tug kvenna komu saman á Vopnafirði í tilefni kvennafrídagsins síðasta föstudag. Gengin var kröfuganga og haldin dagskrá með barátturæðum.

Tæplega 30 konur tóku þátt í kröfugöngunni, sem gengin var frá grunnskólanum að félagsheimilinu Miklagarði. 

Þar var dagskrá með tónlistaratriði og ræðu Sigríðar Dóru Sverrisdóttur. Að lokum var fylgst með beinni sjónvarpsútsendingu frá Austurvelli. 

Stórhugur sem vakti alþjóðlega athygli

Eins og fleiri ræðumenn dagsins kom Sigríður Dóra inn á hversu mikil straumhvörf fyrsti kvennafrídagurinn markaði árið 1975. 

„Þær sýndu þann dag mátt sinn og vilja og sönnuðu með því að með samstöðu værum við ekki aðeins jafnokar karla heldur jafnvel fremri þeim. Þær gerðu það með slíkum stórhug að eftir var tekið um víða veröld. 

Eftir þennan dag myndu vinnandi konur bæði á heimilum og út á atvinnumarkaði ekki sætta sig við neitt minna en jafnræði í þjóðfélaginu og eigi linna uns því hefði verið náð,“ sagði hún.

Einstæðar mæður á lægstu laununum í erfiðustu málunum

Hún tók þó skýrt fram að jafnréttinu væri alls ekki náð. Hún kom sérstaklega inn á kjör verkakvenna, sem hún sagði að væru alltaf þær sem fengju minnst. „Oftast eru laun kvennastétta án óunninnar yfirvinnu, bílastyrks og síma. Fyrir þær sem eru einstæðar mæður á lægstu töxtunum er algerlega óvinnandi vegur að framfleyta sér.“

Hún sagði jafnréttisbaráttuna ekki ganga út á að svipa karla öllum völdum eða kyrrsetja þá við heimilisstörf. Aðeins sé verið að biðja um jafnrétti í orði og á borði.

„Ég vona svo að okkur beri gæfa til að standa saman því sterkari stöndum við-- sundraðar föllum við. Svo að næst þegar haldið verður upp á kvennafrídaginn hafi fullu launajafnrétti verið náð.“