Komu skipverjum á vélarvana fiskibát til hjálpar austur af Barðanum
Björgunarsveit Hafbjargar í Neskaupstað var ræst út rétt fyrir klukkan 4 í nótt vegna vélarvana fiskibáts 22 sjómílum austur af Barðanum. Tókst allt vel þegar komið var á staðinn og eru bátarnir rétt ókomnir í land.
Ósk um aðstoðina barst björgunarsveitinni klukkan 15 mínútur í 4 í nótt en þá hafði fiskibáturinn misst allt afl en um borð voru fjórir skipverjar. Nokkur vindur var á svæðinu og él en að öðru leyti fór vel um skipverja.
Björgunarsveitarfólk um borð í Hafbjörgu kom á staðinn tveimur tímum síðar og klukkan hálfsjö hafði tekist að koma dráttartaug í fiskibátinn. Var stefnan þá tekin í land í kjölfarið með bátinn í togi og gekk það vel fyrir sig. Voru bátarnir á rólegri siglingu 8 sjómílum frá Reyðarfirði rétt fyrir klukkan 9 í morgun.
Mynd tekin á vettvangi snemma í morgun úr Hafbjörgu en vel gekk að koma taug á milli þegar að var komið. Mynd Landsbjörg