Kubbur bauð lægst í sorpþjónustu í Fjarðabyggð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. okt 2025 16:04 • Uppfært 01. okt 2025 16:05
Fyrirtækið Kubbur átti lægsta tilboð í sorphirðu og þjónustu í Fjarðabyggð en tilboð í verkið fyrir árin 2026-2029 voru opnuð í síðustu viku að loknu útboði. Bæjarráð hefur ákveðið að taka tilboðinu.
Útboðinu var skipt upp í tvo verkhluta, annars vegar sorphirðu, hins vegar rekstur móttökustöðva. Hægt var að bjóða í sitt hvorn liðinn óháð því hvort fyrirtæki fengi hinn, eða leggja fram tilboð í heildarverkið.
Alls bárust tilboð frá fimm aðilum. Allir buðu í þjónustuna í heild sinni og fjórir þeirra í verkhlutana.
Kubbur ehf., sem séð hefur hefur um sorphirðuna í Fjarðabyggð undanfarin ár og nú í heilt ár líka í Múlaþingi, átti lægsta boð í heildarverkið. Það var tæpir 1,2 milljarðar króna. Næstu tilboð voru frá UHA Umhverfisþjónustu og Umhverfisþjónustu Austurlands, um 60 milljónum hærri. Þau tilboð voru á allan hátt jöfn upp á krónu en fyrirtækin eru tengd.
Tilboð Kubbs var hið eina undir kostnaðaráætlun sem var 1,25 milljarðar. Einnig bárust tilboð frá Íslenska gámafélaginu upp á 1,32 milljarða og Terru upp á 1,52 milljarða. Öll þau tilboð sem bárust í staka verkþætti voru vel fyrir ofan kostnaðaráætlun.
Í opnunarskýrslu kemur fram að athugasemd hafi borist frá einum bjóðanda um ósamræmi í gögnum annars.
Niðurstöður útboðsins voru lagðar fyrir fund bæjarráðs í gær sem ákvað þar að taka tilboði Kubbs.