Kynning á þeim þjóðum sem búa á Vopnafirði

Fjölmenningarhátíð verður haldin öðru sinni á Vopnafirði um helgina. Þar er nú fólk með fasta búsetu frá ríflega 20 þjóðlöndum og hefur fjölgað hratt á stuttum tíma.

„Þetta er kynning á þeim þjóðum sem hafa hér fasta búsetu,“ segir Þórhildur Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Vopnafjarðarhreppi.

Hátíðin var fyrst haldin í lok febrúar 2020. Þá bjuggu þar 22 þjóðir. Síðan hefur fólk frá Gvatemala flutt í burtu en í staðinn komið frá Pakistan og Svíþjóð.

Um síðustu mánaðamót voru 60 erlendir íbúar á Vopnafirði, af 670 íbúum. Pólskt fólk er fjölmennast í hópnum en þar á eftir koma Tælendingar. Samfélagið hefur breyst töluvert á skömmum tíma.

„Hingað hefur alltaf komið fólk erlendis frá, hér er nokkuð af fólki ættuðu frá Færeyjum og síðan komu hingað danskar konur til að vinna. Ég held að ein þeirra sé enn eftir. Hér hefur annars búið finns kona í 30 ár og bandarísk í 20 ár. Annars voru hér ekki margar þjóðir fyrir sex árum. Það hefur aldeilis breyst,“ segir Þórhildur.

Engin fjölmenningarhátíð var í fyrra heldur barnamenningarhátíð með fjölþjóðlegu ívafi sem teygði sig yfir allt árið. Þá lærðu börnin á leikskólanum að telja upp að fimm á 13 tungumálum og í tilefni þjóðhátíðardaga var flaggað fánum þeirra þjóða sem búa á Vopnafirði.

Á hátíðinni á morgun verður margvísleg kynning á þeim þjóðum sem búa á Vopnafirði, meðal annars boðið upp á fjölþjóðlegt smakk, dansatriði, leiki, erlenda teiknimynd fyrir börn og fleira.

Hátíðin verður í félagsheimilinu Miklagarði og þar er fólk mætt til að undirbúa. „Við erum með nefnd sem er að búa sig undir að skreyta og hengja upp fána. Hópur Pólverja ætlar að nota eldhúsið í kvöld til að elda það sem þau verða með á morgun,“ segir Þórhildur sem telur hátíð sem þessa skipta miklu máli fyrir samfélagið á Vopnafirði. „Hún tengir Vopnfirðinga alla saman.“

Frá fjölmenningarhátíðinni 2020. Mynd: Þórhildur Sigurðardóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.