Landgræðslan telur óhentugt að reka einmenningsstöðvar

Landgræðslan hefur lokað starfsstöð sinni á Egilsstöðum. Verkefni á svæðinu eru ekki lengur talin nægilega mikil þannig að forsenda sé fyrir að halda úti fullu starfi á svæðinu.

Þetta kemur fram í svari Árna Bragasonar, landgræðslustjóra, við ósk sveitarfélagsins Múlaþings um rökstuðnings fyrir ákvörðuninni. Heimastjórn Fljótsdalshéraðs skoraði á síðasta fundi sínum á Landgræðsluna að tryggði verði áframhaldandi starfsemi á Egilsstöðum og umsjón þar með stórum sem stofnunin vinnur að í sveitarfélaginu.

Í svari landgræðslustjóra er bent á að með nýjum lögum um landgræðslu árið 2018 hafi hlutverk stofnunarinnar breyst auk þess sem henni hafi verið falin ný verkefni við vöktun gróðurs og loftlagsmála.

Til þessa hafi Landgræðslan skipt landinu í fimm starfssvæði, svokölluð héraðssetur. Á hverjum stað hafi verið héraðsfulltrúar sem sinnt hafi daglegum rekstri á sínum svæðum auk verkefnastjórnunar á landsvísu.

Í bréfinu kemur fram það álit að ekki hafi gefist vel að reka starfsstöðvar með aðeins einum starfsmanni. Í fyrsta lagi sé erfitt fyrir starfsfólk að vinna eitt, í öðru lagi sé nýting á húsnæði, tækjum og tíma lakari. Tvær slíkar stöðvar hafi verið, annars vegar Egilsstöðum, hins vegar Sauðárkróki.

Bent er á að við ráðningu síðasta héraðsfulltrúa á Austurlandi hafi starfshlutfallið verið aukið upp í fullt starf, í þeirri von að verkefnum myndi fjölga en það hafi ekki gengið eftir. Verulega hafi dregið úr verkefnum þegar verkefnastjórn fyrir Landsvirkjun á Kárahnjúkasvæðinu var færð af stöðunni.

Í svari landgræðslustjóra segir að mörg verkefni Landgræðslunnar krefjist þess að þeim sé sinnt á viðkomandi svæðum. Sums staðar hafi verið við verktaka um afmörkuð verkefni og slíkt hafi gefist vel, til dæmis samstarf við Náttúrustofu Suðurlands, þannig reyna megi það víðar.

Fram kemur að skoðað hafi verið flytja landsdekkandi verkefni austur en það ekki talið henta. Því hafi niðurstaðan orðið sú, eftir „ítarlega skoðun á verkefnum og verkefnaálagi,“ að ekki væri forsenda til að halda úti starfi héraðsfulltrúa á Egilsstöðum, hvað sem síðar kunni að verða. Starfsmanni hafi því verið sagt upp og skrifstofunni lokað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.