Landsnet með viðbúnað út af mögulegri ísingu
Landsnet sendi í morgun frá sér viðvörun um möguleg áhrif mikillar úrkomu og slyddu sem von er á í nótt á flutningskerfi raforku á Austurlandi. Vakt er á svæðinu en ekki er talið að veðrið hafi teljandi áhrif á kerfið.„Það er bakki með ákafri úrkomu sem fer suður yfir austanvert landið seint í nótt og framan af morgundeginum sem við höfum mögulega áhyggjur af að geti haft áhrif á kerfið okkar á svæðinu,“ segir Steinunn Þórarinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Viðvörunin var gefin út í morgun og staðan metin aftur síðdegis að loknum fundi með veðurfræðingi. Í samtali við Austurfrétt sagði Steinunn að hjá Landsneti væri ekki reiknað með að neitt gerðist en viðbúnaður sem þessi sé eftir verkferlum þegar illviðri sé í nánd. „Við förum yfir svæðin okkar og hvar veðrið getur haft áhrif þannig við getum brugðist við.“
Von er á að í veðrið gangi um klukkan þrjú í nótt og standi fram á miðjan dag á morgun. Ofan 400 metra hæðar yfir sjávarmáli verður 1-2 stiga frost, yfirmettun og líklega mikil skýjaísing.
Í 150-300 metra hæð verður krapi og slydda en þar er einkum hætt við áraun slydduísingar á línur. Mest er hættan talin á línum austur yfir Austfjarðafjöll, Vopnafjarðarlínu og Fljótsdalslínu, einkum um Hallormsstaðarháls. Einnig er fylgst með Kópaskerslínu og Þeistareykjalínu.
Landsnet gefur út tilkynningar á vef sínum, Facebook og sérstöku forriti fyrir snjalltæki ef eitthvað gerist.