Landsvirkjun rannsakar aðstæður til vindorkunýtingar á Fljótsdalsheiði
Landsvirkjun hefur í rúmt ár staðið fyrir frumrannsóknum á möguleikum á nýtingu vindorku á Fljótsdalsheiði. Engar ákvarðanir liggja enn fyrir um frekari framkvæmdir.
Landsvirkjun setti sumarið 2024 upp ljóssjá, einnig þekkt sem LiDAR, á heiðinni og radar til að greina umferð fugla. Tækin eru staðsett við vegslóða rétt sunnan við Hólmavatn en staðurinn var valinn þannig að rask væri lágmarkað.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Gísli Björn Helgason, verkefnastjóri í þróun vindorku hjá Landsvirkjun, að verið sé að skoða svæðið suður af Miðfelli. Fyrirtækið hefur verið að skoða möguleika á vindorkuvinnslu í nágrenni við aðrar virkjanir, í þessu tilfelli Fljótsdalsstöð, þar sem helstu innviðir, svo sem flutningslínur, eru til staðar.
Rannsóknir á vindgæðunum á Fljótsdalsheiði eru á frumstigi. Tækjunum er ætlað að afla frumgagna um staðhætti, einkum veðurfar, á svæðinu. Þegar þau liggja fyrir er hægt að meta hvort svæðið sé heppilegt til vindorkunýtingar eða ekki. Þar af leiðandi liggur til dæmis ekkert fyrir um mögulega stærð á vindorkuveri þar eða annað.
Verið er að meta árangurinn eftir undanfarið ár og næstu skref. Gísli segir að safna þurfi ákveðnum gögnum og aðstæður séu ekki alltaf þannig að ljóssjáin geti mælt. Ráðgjafi sé að skoða gögnin og rýna stöðuna, í framhaldi verði tekin ákvörðun um þörfina á frekari mælingum.