Lausn á íþróttahúsi Eskfirðinga forgangsmál hjá Fjarðabyggð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. jan 2025 13:46 • Uppfært 29. jan 2025 13:49
Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar segir það forgangsmál hjá sveitarfélaginu að finna lausn á aðstöðu til íþróttaiðkunar á Eskifirði, en íþróttahús staðarins hefur verið lokað í tvö ár. Sveitarfélagið hóf nýverið viðræður við einkaaðila sem hefur hug á að byggja nýtt íþróttahús.
Fulltrúar íbúasamtaka Eskifjarðar og ungmennafélagsins Austra sendu bæjaryfirvöldum í byrjun vikunnar opið bréf þar sem lýst er áhyggjum af íþróttaaðstöðunni á Eskifirði. Tvö ár eru síðan íþróttahúsinu þar var lokað vegna myglu.
Síðan hefur börnum verið keyrt í íþróttir á Reyðarfirði, þegar ekki stendur yfir sundkennsla eða hægt er að nota aðra aðstöðu eins og sparkvöllinn. Hann er ónothæfur hluta úr vetri því snjóbræðslukerfi slíkra valla ráða ekki við vetrarhörkur eins og verið hafa síðustu viku. Þá hafa komið upp bilanir í því.
Í bréfinu, sem birt var á Austurfrétt í gær, eru viðraðar áhyggjur af því að börnin fái ekki þá íþróttakennslu sem gert sé ráð fyrir í lögum og það, ásamt takmarkaðri æfingaaðstöðu, hafi áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra og dragi úr vilja nýs fólks til að flytja til Eskifjarðar. Í gær sendi skólaráð Eskifjarðarskóla einnig frá sér ályktun þar sem lýst er áhyggjum af stöðunni.
Endurbætur aldrei undir 200 milljónum
Við myndum nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar um miðjan mars í fyrra var því heitið að fara í hönnun og undirbúning við íþróttahúsið á Eskifirði þannig þar yrði hægt að byrja á framkvæmdum í ár.
Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, segir að því heiti hafi verið fylgt eftir með nánari athugun á ástandi hússins til að að greina kostnað við endurbætur á húsinu og hve lengi þær myndu endast. Gróft mat hafi verið að lágmarksendurbætur kosti 200-300 milljónir króna. Staðan sé þó sú að húsið sé orðið gamalt og uppfylli illa kröfur nútímans þannig að einnig þyrftu að fara í frekari endurbætur. „Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að endurbætur á gömlu húsi verða alltaf dýrar.“
Á sama tíma hefur verið skoðað hvað nýtt hús myndi kosta og hvernig það yrði fjármagnað. Samkvæmt skipulagi myndi það rísa við hlið sundlaugarinnar og knattspyrnuvallarins inn á Eskifjarðardal.
R101 sýnir áhuga á að byggja nýtt íþróttahús
Fyrr í þessum mánuði barst Fjarðabyggð erindi frá R101 ehf., sem meðal annars stendur að baki byggingu nýs búsetukjarna á Reyðarfirði, um samstarf um byggingu íþróttahúss á Eskifirði með þeim hætti að R101 myndi byggja þar nýtt hús sem Fjarðabyggð leigði. Framkvæmdastjóri R101 kom til fundar með bæjarráði á mánudag og þar var samþykkt að fara í formlegar viðræður. „Einn þeirra kosta sem við höfum skoðað er að fjárfestir fjármagni verkið og R101 hafði þetta frumkvæði,“ segir Ragnar.
Á þessu stigi liggur ekkert fyrir um hönnun hússins. Fyrsta skrefið er að móta nánar með R101 hvers konar íþróttahús þurfi. „Fyrst er að ákveða hvers konar húsi er þörf á og nákvæmari staðsetningu. Á þessu stigi er þó ekkert frágengið annað en það að það er fullur áhugi að skoða þennan valmöguleika til hlítar.“
Í bókun bæjarráðs um bréf Eskfirðinga er tekið undir með bréfriturum um að nauðsynlegt sé að bregðast við stöðunni sem fullur skilningur sé á. Þess vegna verði íþróttahús á Eskifirði sett í forgang. Ragnar ítrekar þó að allar lausnir taki tíma, hvort sem það yrðu endurbætur á núverandi húsi eða nýbygging. Viðræður um nýtt hús og byggingu eigi þó ekki að lengja biðina. Stefnt sé á að ljúka þeim á næstu vikum þannig að ákvörðun liggi fyrir. Á meðan þurfi Eskfirðingar að fara í önnur byggðarlög til að stunda inniíþróttir.
Skólalóð skoðuð í samhengi við íþróttahús
Í ályktun skólaráðsins er einnig lýst yfir áhyggjum af ástandi skólalóðarinnar. Miklu fé hafi verið varið til hönnunar hennar fyrir nokkrum árum en lítið stuðst við hana þegar farið var í framkvæmdirnar. Leiktæki séu í slæmu ástandi og löng bið eftir viðgerð. Skorað er á bæjaryfirvöld að tryggja að sparkvellinum verði komið í nothæft ástand.
Um uppbyggingu á skólalóðinni segir Ragnar að hún sé háð því hvað verði um íþróttahúsið. Það gamla verði rifið ef nýtt verður byggt og við það skapist pláss til að stækka og bæta skólalóðina. „Bæjarráð er samála sjónarmiði íbúa um að núverandi aðstæður eru óviðunandi. Það sést best á að málið var sett á oddinn hjá nýjum meirihluta.
Allir byggðakjarnar eiga að hafa lágmarksaðstöðu til hreyfingar innanhúss, bæði til skólaíþrótta og æfinga. Hún er víðast hvar mjög góð og af því erum við stolt en í dag er Eskifjörður sá kjarni sem ekki hefur hana og það ætlum við að laga.“