Leikskólinn á Stöðvarfirði opinn í vetur
Fallið hefur verið frá lokun leikskólans á Stöðvarfirði að sinni. Til stóð að loka honum vegna manneklu en ráðning tókst í tæka tíð.
Samkvæmt lögum þarf að hafa tvo starfsmenn á leikskóladeild til að halda henni opinni. Annar þeirra starfsmanna sem verið hafa á Stöðvarfirði var að hætta og tilraunir í haust til að ráða arftaka lukkuðust ekki.
Þess vegna blasti ekki annað við en loka leikskóladeildinni. Þá hefðu foreldrar þurft að keyra börnum sínum í leikskóla á Breiðdalsvík.
Eftir að umræða um stöðuna komst í hámæli barst hins vegar umsókn um lausu stöðuna. Samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð hefur verið gengið frá ráðningu og því þarf ekki að loka leikskólanum að sinni.
Framtíð hans er þó óráðin vegna þess að ekkert barn er skráð í skólann á næsta ári. Þau börn sem eru í skólanum nú eru öll að útskrifast.