„Leikum okkur að síldinni“

„Megintilgangurinn með þessu verkefni er að hafa gaman og sýna fram á möguleikana sem liggja í síldinni sem og öðrum afurðum Austurlands,“ segir smurbrauðsjómfrúin Tinna Rut Ólafsdóttir, um „síldarsmakk“ sem verður á Randúlfssjóhúsi á Eskifirði í kvöld.


Tinna Rut er búsett á Norðfirði og vann sem kokkur á Hótel Eddu í sumar þar sem hún bauð meðal annars upp á smurbrauð. Í tilefni síldarvertíðar blæs hún til síldarveislu á Randólfssjóhúsi á Eskifirði milli klukkan 19:00-21:00 (eða meðan birgðir endast) þar sem fólk getur litið við og smakkað allskonar síldarrétti, því að kostnaðarlausu.

Tinna segist hafa unnið við eldamennsku frá unga aldri. „Þegar ég var 19 ára gömul vann ég á Hótel Loftleiðum og kynntist þar Idu Davidsen sem hafði verið fengin frá Danmörku til að setja upp sitt heimsfræga jólahlaðborð, en segja má að Ida sé smurbrauðsdrottningin og ein sú allra virtasta í bransanum. Hún sá eitthvað í mér og bauð mér að koma á samning hjá sér ef ég gæti hugsað mér að flytja út og hefja nám í Hótel og veitingaskóla Kaupmannahafnar. Ég gerði mér enga grein fyrir því fyrr en ég hafði hafið mitt nám hvað það var mikill heiður og einstakt tækifæri að þessi virta og heimsfræga kona væri að bjóða mér að vinna og læra af henni,“ segir Tinna Rut sem var nemi hjá Idu í fjögur ár. Síðan þá hefur hún unnið á allskonar veitingastöðum bæði hérlendis og í Danmörku. 


Kynntist síldinni á nýjan hátt í Danmörku
Tinna Rut verður með í kringum tuttugu tegundir af síld í kvöld. Hvað er það við síldina sem heillar Tinnu Rut svo mikið? „Ég kynntist síldinni fyrir alvöru þegar ég var að læra í Danmörku og því hvað er hægt að gera við hana, en við höfum helst vanist því að borða hana marineraða. Ég upplifði síldina því á nýjan hátt þegar ég fór að vinna með hana ferska. Síðan þá hefur mér þótt það mikil synd að svo erfitt sé að fá hana ferska hérlendis, nema þá kannski hér fyrir austan. Þetta er flottur fiskur sem við Íslendingar veiðum hve mest af í heiminum og að mínu mati er hún allt of lítið snædd af okkur og í raun vanmetið hráefni. Ég ætla í kvöld að leggja mitt af mörkum til að vekja athygli fólks á síldinni og sýna hana í nýju ljósi, leikum okkur að síldinni,“ segir Tinna Rut sem leggur einnig mikla áherslu á að nýta hráefni úr héraði og gera sem mest frá grunni í sinni matargerð. 


„Verkefnið hefur fengið frábærar undirtektir“
Tinna Rut segir slíkt verkefni ekki vera mögulegt nema í samstarfi við matvælaframleiðendur, fyrirtæki og sjóði á Austurlandi. „Ég leitaði til ýmissa aðila og verkefnið hefur fengið frábærar undirtektir. Þar má meðal annars nefna að síldin sem borin verður fram kemur frá Síldarvinnslunni, Eskju og Loðnuvinnslunni. Sesam brauðhús bakar brauðin og eftirrétti. Beljandi bjór sér um veigarnar. Sagið og kurlið til reykingar kemur frá Skógarafurðum á Hallormsstað. Þróaður verður raspur úr Vallanes perlubyggi. Birkireykt þorskalifur og búnaður frá iCan. Sjóhús Randúlffs leggur til aðstöðu og einnig styrkir Útvegsmannafélag Austurlands verkefnið,“ segir Tinna Rut, en hún mun einnig vera með síldarsmakk á Tæknidegi fjölskyldunnar í Neskaupstað um helgina, þar sem gestum er boðið að búa til sínar eigin snittur.

Dreymir um að opna veitingastað á Austurlandi
Tinna Rut á sér stóran draum. „Mig lagnar að fara í rekstur og opna gæða smurbrauðsveitingastað/veisluþjónustu á Austurlandi og vinn ég nú hörðum hondum að láta þann draum rætast.“

Síldarsmakk

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar