Skip to main content

Líka varað við stormi að kvöldi Þorláksmessu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. des 2024 10:59Uppfært 23. des 2024 11:00

Veðurstofan hefur gefið út nýja viðvörun þar sem varað er við suðvestan hvassviðri í kvöld og fram á nótt. Ekki hefur verið hægt að fljúga innanlands í morgun vegna veðurs.


Gul viðvörun er í gildi til hádegis fyrir Austurland að Glettingi vegna suðaustan hvassviðris sem gengur yfir landið. Flugi til Egilsstaða var aflýst í morgun. Tvö flug voru á áætlun og er enn sem komið engin breyting á kvöldfluginu en það gæti náðst milli gulra viðvarana. Eitt flug er áætlað að morgni aðfangadags.

Óvissustig hefur verið í gildi á vegunum yfir Fagradal og Fjarðarheiði, sem þýðir að þeir geta lokast með skömmum fyrirvara, en þeir hafa haldist opnir. Víða á Austurlandi er skafrenningur og hálka. Flughált er í Hvalnes- og Þvottárskriðum.

Veðurstofan hefur nú gefið út nýja viðvörun fyrir Austurland að Glettingi þar sem von er á öðrum stormi í kvöld. Hún er líka gul og gildir frá klukkan 20:00 í kvöld þar til þrjú í nótt.

Á þeim tíma er spáð suðvestan 15-25 m/s með staðbundnum vindhviðum yfir 35 m/s. Fólk er því hvatt til að tryggja lausamuni og vakin athygli á að ferðaveðrið verði varasamt.

Engin viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austfirði.