Líka varað við stormi að kvöldi Þorláksmessu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. des 2024 10:59 • Uppfært 23. des 2024 11:00
Veðurstofan hefur gefið út nýja viðvörun þar sem varað er við suðvestan hvassviðri í kvöld og fram á nótt. Ekki hefur verið hægt að fljúga innanlands í morgun vegna veðurs.
Gul viðvörun er í gildi til hádegis fyrir Austurland að Glettingi vegna suðaustan hvassviðris sem gengur yfir landið. Flugi til Egilsstaða var aflýst í morgun. Tvö flug voru á áætlun og er enn sem komið engin breyting á kvöldfluginu en það gæti náðst milli gulra viðvarana. Eitt flug er áætlað að morgni aðfangadags.
Óvissustig hefur verið í gildi á vegunum yfir Fagradal og Fjarðarheiði, sem þýðir að þeir geta lokast með skömmum fyrirvara, en þeir hafa haldist opnir. Víða á Austurlandi er skafrenningur og hálka. Flughált er í Hvalnes- og Þvottárskriðum.
Veðurstofan hefur nú gefið út nýja viðvörun fyrir Austurland að Glettingi þar sem von er á öðrum stormi í kvöld. Hún er líka gul og gildir frá klukkan 20:00 í kvöld þar til þrjú í nótt.
Á þeim tíma er spáð suðvestan 15-25 m/s með staðbundnum vindhviðum yfir 35 m/s. Fólk er því hvatt til að tryggja lausamuni og vakin athygli á að ferðaveðrið verði varasamt.
Engin viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austfirði.