Ljóst að töluvert foktjón varð á álverinu

Ekki er enn að fullu ljóst hve miklar skemmdir urðu á byggingum Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði í hvassviðrinu í gær. Áhersla er enn á að koma starfseminni í samt lag eftir rafmagnsleysi.

„Það er ljóst að talsvert foktjón varð á álverinu, aðallega á klæðningum sem hafa losnað af byggingum. Þetta er samt ekki risatjón eins og sums staðar, hér vantar engar hliðar,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi álversins.

Talsvert tjón mun hins vegar hafa orðið í kringum Mjóeyrarhöfn og á Hrauni, svæðunum sem eru næst álverinu að innanverðu sem. Sömu sögu er að segja úr þéttbýlinu á Reyðarfirði.

Dagmar segir þau tilmæli hafa verið gefin til starfsfólks að halda sig innandyra í gær. Þar var nóg að gera eftir að rafmagnið fór af álverinu.

„Veðrið fyrir utan var eitt, annað var rafmagnsleysið innanhúss. Slíkt skapar mikið álag hér. Við vorum án rafmagns í um tvo tíma. Síðan tekur talsverðan tíma að koma framleiðslunni á rétt ról. Það er enn okkar aðaláhersla, þess vegna höfum við ekki kannað skemmdirnar nákvæmlega enn. Við gerum það þegar veðrið verður að fullu gengið yfir.

Okkur er efst í huga hrós til starfsfólksins sem stóð vaktina. Það var meira en að segja það og fólkið stóð sig frábærlega. Eins er vert að hrósa Landsneti og Landsvirkjun fyrir skjót viðbrögð þegar rafmagnið fór.“

Eins bætir það í álagið að vegna lokunar vegarins yfir Fagradal hafa vaktaskipti í álverinu ekki getað farið fram með eðlilegum hætti. „Við höfum gott fólk á fjörðunum sem hjálpar til við að leysa þá af sem ekki hafa komist til vinnu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.