Óljóst hvaða áhrif fosföt hafa á heilsu manna

kalli_sveins.jpgÓlafur Valsson, yfirmaður matvælaeftirlits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) segir bann Evrópusambandsins gegn notkun fjölfosfata í saltfiski snúast um vernd neytenda. Ekki sé fyllilega ljóst hvaða áhrif efnin hafi á fólk.

 

Þetta er haft eftir Ólafi í Austurglugganum. Líkt og aðrir talsmenn ESA, sem Agl.is hefur rætt við, ítrekar Ólafur að ESA sé aðeins að framfylgja lögum sem aðildarríki hafi undirgengist. Íslensk stjórnvöld bönnuðu þannig fjölfosfötin árið 2002 en fylgdu banninu ekki eftir fyrr en um áramót. Íslensk stjórnvöld gerðu ekki athugasemdirnar við löggjöfina á sínum tíma eða sóttu um sérákvæði.

Austurglugginn segir að því hafi ólafur ekki viljað tjá sig um hvers vegna efnin séu bönnuð í fisknum enda sé það hvorki í hans „verkahring að hafa skoðun né vitneskju á því.“ Hann þekki þó til umræðu og áhyggjur manna af því að slíkt aukaefni hafi „umtalsverð áhrif á hina endanlegu vöru svo sem útlit og skaði því neytendavernd kaupendi.“

Ekki sé heldur fyllilega ljóst hvaða áhrif fosfötin hafi á heilsu manna þótt notkun efnanna sé leyfð í ýmsum öðrum matvælum.

Mikil umræða upphófst hérlendis um fosfötin eftir að Karl Sveinsson, útgerðarmaður á Borgarfirði, sagði upp starfsfólki þar sem hann sagðist ekki lengur geta keppt við aðra íslenska framleiðendur sem notuðu efnið ólöglega. Eftir fjölmiðlaumfjöllun um málið barst íslenskum stjórnvöldum harðort bréf frá ESA þar sem þeim var skipað að hætta notkun efnanna umsvifalaust. Síðan hafa stærstu saltfiskframleiðendur og íslensk stjórnvöld reynt að fá efnin leyfð þótt banninu sé í dag framfylgt hérlendis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar