Loðna á ferðinni úti fyrir Austfjörðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. jan 2025 10:50 • Uppfært 21. jan 2025 10:51
Barði NK og Polar Ammassak hafa bæði orðið vör við loðnu fyrir austan landið í leitarleiðangri sem stendur yfir. Enginn kvóti verður þó gefinn út fyrr en niðurstöður leiðangursins í heild liggja fyrir. Talsverðar tafir hafa orðið vegna veðurs.
Barði og Polar fóru frá Neskaupstað á fimmtudags. Á föstudag lét Árni Friðriksson úr höfn í Hafnarfirði en skipið þurfti í var undir Vestfjörðum áður en leit þess gat hafist af alvöru. Barði og Polar biðu einnig af sér veðrið austur af landinu.
Öll skipin fóru aftur af stað í gærkvöldi. Það sama er að segja um Heimaey VE sem loks fór þá af stað frá Þórshöfn.
Polar og Barði hófu leit sína norður af Langanesi og sigla austur fyrir land. Eftir að þau færðust austur fyrir nesið fóru þau að verða vör við loðnu og hafa tekið sýni. Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar segir ljóst að loðnuganga sé þar á ferðinni en of snemmt sé að segja um stærð hennar.
Heimaey á að fara meðfram norðanverðu landinu en Árni um Grænlandssund. Til greina kemur að senda annað skipið að austan til aðstoðar Heimaey vegna þeirra tafa sem orðið hafa út af veðrinu. Slík ákvörðun verður væntanlega tekin síðar í dag.
Samkvæmt áætlun eiga skipin eftir að fara nokkuð sunnar. Kolmunnaskip sem komu upp að landinu fyrir viku horfðu eftir loðnu en fundu ekkert. Aldur þeirra upplýsinga verður þó að taka með í reikninginn.
Aðspurður segir Guðmundur að enginn kvóti verði gefinn út fyrr en öll skipin verði komin í land því heildarmyndin þurfi að liggja fyrir. Ef allt gengur að óskum ætti leiðangrinum að ljúka um helgina.