Lögreglan á Austurlandi hyggst bæta þjónustu sína frekar
Á liðnu ári reyndust rúm 84% aðspurðra í viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands telja að lögreglan á Austurlandi skilaði góðu starfi. Í nýbirtri stefnu fyrir yfirstandandi ár skal unnið að því að auka þetta hlutfall í 90%.
Lögregla í hverju umdæmi fyrir sig birtir snemma árs stefnu sína og áætlanir hvert ár en við þá vinnu er tekið tillit til tölfræði og gagna töluvert aftur í tímann. Fyrir skömmu birti lögreglan á Austurlandi sínar áætlanir sem og niðurstöður síðasta árs og fer þar ekki milli mála að metnaður er til að gera enn betur en verið hefur.
Í viðbót við markmiðið um að skila enn betra starfi á þessu ári vill lögreglan auka öryggistilfinningu fólks í öllum fjórðungnum. Um 94,4% svarenda í sérstakri þolendakönnun töldu sig frekar eða mjög örugga í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi 2024. Yfirstjórn lögreglu vill ná þessu hlutfalli yfir 95% markið á þessu ári.
Því markmiði skal fyrst og fremst ná með enn nánari samvinnu við fjölmarga lykilaðila í fjórðungnum. Það aðilar á borð við sveitarfélögin, heilbrigðisstofnanir, slökkvilið, Rauða krossinn og Vegagerðina svo fáir séu nefndir. Þá skal fjölga heimsóknum í skóla, félagsmiðstöðvar og fyrirtæki á svæðinu og í þeim leggja áherslu á samvinnu og samtal á sem víðustum grunni.