Loks hægt að njóta neysluvatns í Hallormsstað vandræðalaust
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. nóv 2024 11:28 • Uppfært 28. nóv 2024 11:51
Staðfest var í gær að ekki mælist lengur neins konar mengun í neysluvatninu í Hallormsstað. Má heimafólk nú njóta vatnsdrykkju án þess að sjóða allt saman í fyrsta skipti í einn og hálfan mánuð.
HEF-veitur beina þó þeim tilmælum til íbúa og gesta á svæðinu að láta renna duglega úr öllum krönum til að byrja með til að hreinsa allar lagnir af hugsanlegum leifum og eða drullu. Slíkt mikilvægt þar sem upprunalega mengunin skýrðist af kólígerlamengun sem aðeins getur komið úr saur frá mönnum eða blóðheitum dýrum.
Vatnsveitan þar er enn á svokölluðu framhjáhlaupi meðan viðgerða er enn þörf á vatnstanki staðarins en vinna við það hefur staðið yfir um tíma og stendur enn. Verða tekin vatnssýni á nýjan leik þegar þeirri vinnu verður lokið.