Loks komið á fullt samstarf milli skíðasvæðanna í Oddsskarði og Stafdal
Rætt hefur verið um náið samstarf og samvinnu skíðasvæðanna tveggja á Austurlandi um margra ára skeið en loks nú hefur tekist samkomulag um samræmda gjaldskrá svæðanna sem og að aðgangspassar að einu svæðinu gildi líka á hinu.
Hingað til hafa skíðaunnendur þurft að greiða sérstaklega á bæði svæðin sem um ræðir og gjaldskrá þeirra verið mismunandi milli ára. Löngum hefur verið talið hagkvæmt, ekki hvað síst varðandi aukna vetrarferðamennsku, að hægt verði að njóta beggja svæða án þess að greiða aðgang að þeim báðum.
Þetta er nú orðið að raunveruleika og tekur gildi strax við opnun skíðasvæðanna tveggja á nýju ári. Slíkt fyrirkomulag var samþykkt í Fjarðabyggð í byrjun mánaðarins og sveitarstjóri Múlaþings sagði á sveitarstjórnarfundi í dag að þetta væri orðið að veruleika þeim megin líka.
Ekki hefur verið auglýst opinberlega hvers konar passa skíðafólk þarf að kaupa til að njóta aðgangs að báðum svæðunum en samkvæmt heimildum Austurfréttar munu helgarpassar sem og allir lengri passar gilda eftirleiðis.
Þessu tengt eru ekki, samkvæmt heimildum, taldar líkur á að svæðin tvö opni formlega fyrr en í byrjun nýs árs en þá aðeins ef nægur verður snjór í brekkunum.