Mæla með tveggja metra fjarlægð meðan málin skýrast

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands mælir með því að fólk haldi meiri fjarlægð en minni næstu daga, eða á meðan útgreiðsla Covid-19 smits á höfuðborgarsvæðinu skýrist.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórninni frá í dag.

Um sextíu ný smit hafa greinst í landinu það sem af er vikunni, nær öll á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefur verið gripið til þess ráðs að loka öllum vínveitingastöðum yfir helgina.

Enginn er með virkt smit á Austurlandi en einn einstaklingur í sóttkví samkvæmt tölum af Covid.is.

Aðgerðastjórn áréttar sem fyrr mikilvægi persónulegra smitvarna. Samkvæmt leiðbeiningum landsyfirvalda er ráðlagt að halda eins metra fjarlægð milli ótengdra aðila en aðgerðastjórnin áréttar að öll frekari fjarlægð þýði aukna smitvörn.

„Tveggja metra reglan er því góð regla næstu daga meðan óvíst er með þróun smits, hvort og þá hversu mikil aukningin er og hversu dreifð hún er um landið,“ segir í tilkynningunni þar sem ítrekað er mikilvægi handþvottar og sprittnotkunar.

Verslunareigendur og rekstraraðilar veitingastaða eru sérstaklega hvattir til að rýna smitvarnir, gæta að fjölda, að spritt sé til staðar, gætt að fjarlægðarmörkum og fjölda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.