Mælir með að yfirfara allt rafmagn á heimilinu fyrir hátíðina
Það er töluvert stórt vandamál á Austurlandi hvað margir aðilar sinna rafverktöku sem ekki eru með löggildingu til rafvirkjunarstarfa. Slíkt getur komið í bakið á almenningi sem nýtir sér þjónustu slíkra aðila.
Rafmagn er almennt eitthvað sem fólk leiðir að mestu hjá sér í dagsins önn nema auðvitað þegar það fer. Full ástæða er að yfirfara allt rafmagn á heimilum fyrir hátíðina sem framundan er því það er gjarnan yfir jólin sem heimili landsins nota langmest rafmagn á ársgrundvelli.
Hrafnkell Guðjónsson, formaður Félags rafverktaka á Austfjörðum, brýnir fyrir fólki að yfirfara allt sitt til öryggis á þessum tímamótum en Samtök rafverktaka brýndu einmitt á opinberum leiðbeiningum sínum til almennings fyrir skömmu. Þar er sérstaklega varað við miklilli notkun fjöltengja sem ekki eru af sömu gæðum. Þar líka bent á að borið hefur töluvert á að rafverktakar hafi orðið varir við að rafmagnstöflur sem þeir þjónusta séu að hitna meira en eðlilegt geti talist. Þar ekki síst í gömlum trétöflum en að sögn Hrafnkells eru trétöflurnar þó ekki vandamál á Austurlandi.
„Nei, þær eru ekki margar hér og það ber að þakka sérstöku átaki manna sem hér störfuðu á sínum tíma og gengu nokkuð hart fram að fá fólk til að skipta í nýrri töflur. Þannig að það í sjálfu sér er ekki stórt vandamál. Mun alvarlegra er hve margir hér á svæðinu eru að sinna rafverktöku án þess að hafa tilskilin leyfi til þess. Það er húseigandi sem ber ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis og ekki þarf mikið út af að bera til að ógna öryggi fólks.“
Hrafnkell vill líka benda fólki á að fjöltengi mörg geta verið varasöm. Fara skal varlega í að tengja marga hluti við eitt slíkt og alls ekki skal tengja eitt fjöltengi við annað.
„Þessi fjöltengi eru upp og niður og reyndar rafmagnssnúrnar líka. Það er til dæmis annar gæðastandard á vörum frá Kína en hér í Evrópu þó auðvitað séu ýmsar vörur þaðan mjög góðar líka. Það er mikilvægt að ganga úr skugga um að fjöltenginging hæfi aðstæðum hverju sinni. Ekki tengja tvö fjöltengi saman og ekki tengja orkufrek tæki við fjöltengin eða nota þar grannar framlengingarsnúrur. Taka skal strax úr umferð búnað með sködduðum snúrum eða klóm.“
Á vef Samtaka rafverktaka er hægt að taka svokallað rafmagnspróf og þannig meta stöðuna á heimilum og í fyrirtækjum á einfaldan hátt. Það próf finnst hér.
Fjöltengi þarf að yfirfara reglulega og gæta þess að þau henti þeim búnaði sem í er tengt hverju sinni.