Mættar til upphitunar þegar leiknum var frestað

Kvennalið Þróttar Neskaupstaðar var mætt suður í Laugardalshöll þegar ákveðið var að fresta leik liðsins gegn Þrótti Reykjavík þar sem einstaklingur úr heimaliðinu var sendur í sóttkví. Félagið þarf að leggja út fyrir annarri borgarferð til að spila leikinn síðar.

Bæði lið Þróttar áttu að leika sína fyrstu leiki í Íslandsmótinu á þessari leiktíð um síðustu helgi. Karlaliðið spilað sinn leik gegn Hamri í Hveragerði á laugardagskvöld og töpuðu 0-3.

Kvennaliðið átti hins vegar tvo leiki gegn Þrótti Reykjavíkur. Bæði Norðfjarðarliðin flugu saman suður til Reykjavíkur að morgni laugardags, en leikur kvennaliðsins átti að hefjast í Laugardalshöll klukkan 14:00.

Kvennalið Þróttar Neskaupstað var mætt í höllina og allt að verða tilbúið fyrir leikinn þegar í ljós kom að einstaklingur úr þjálfaraliðið heimaliðsins átti að vera í sóttkví eftir að hafa verið í samskiptum við aðila sem greindist með Covid-19 veiruna.

Reglurnar óskýrar í fyrsta leik

Lilja Tekla Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri blakdeildar Þróttar Neskaupstaðar, segir að strangt til tekið hefði verið hægt að spila leikinn. Hins vegar hafi fólk ekki verið með reglurnar á hreinu í fyrsta leik auk þess sem enginn hafi viljað taka neina áhættu.

„Það kom upp smá óðagot og það hefði mátt anda hægar en það er engum einum um að kenna. Við ætluðum ekki að heimta að leikurinn yrði spilaður. Hvað ef einhver leikmanna mótherjanna er smitaður og það berst til okkar? Þá erum við að koma með veiruna austur. Við berum líka samfélagslega ábyrgð að passa okkar lið og höfum lagt á það áherslu við okkar leikmenn að haga sér skynsamlega,“ segir hún.

Hún bendir á að samkvæmt reglum Blaksambands Íslands sé hægt að fresta leik þegar þrír stigahæstu leikmenn liðs séu komnir í sóttkví eða einangrun. Fyrir fyrsta leik eru hins vegar engin stig til staðar. „Það eru allir að læra og finna út hvernig hlutirnir virkar,“ segir hún.

Úrræði fyrir félög þurfa að vera til staðar

Liðið fór því heim aftur án þess að spila leikina tvo sem það átti bókaða og þarf því að leggja út fyrir annarri ferð síðar til að mæta í þá. Flug og annar ferðakostnaður í hverri ferð liðs er vel á fjórða hundrað þúsund króna. Lilja Tekla hvetur til umræðu innan íþróttahreyfingarinnar um hvernig sé hægt að koma til móts við félög sem lagt hafi í langferðir en lendi síðan í frestunum vegna smitvarna.

„Við höfum haft samband við Blaksambandið um hvert við getum snúið okkur. Okkur finnst að það þurfi eitthvað að vera til staðar fyrir lið sem lendir í svona aðstæðum. Þetta snýst ekki bara um okkur, staða liðs sem hefði komið austur og lent í frestun hér væri sú sama. Þetta er mikill peningur sem fer í vaskinn,“ segir hún.

Löng heimferð

Þrautir Þróttarliðanna voru reyndar ekki búnar á laugardeginum. Liðin áttu pantað far heim á sunnudagskvöldi en flugi þá var frestað vegna veðurs. Í ljósi þess að það var þriðja flugferð helgarinnar sem var aflýst, auk þess sem engin trygging var fyrir að hægt yrði að koma öllum hópnum, um 20 manns, saman heim á mánudagsmorgni, ákváðu Þróttarar að leigja bílaleigubíla og keyra heim.

Mikið hvassviðri var á norðaustanverðu landinu á sunnudagskvöld og um kvöldið var komin hálka á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og því ákveðið að gista nálægt Goðafossi áður en haldið var áfram austur. Hópurinn kom til Norðfjarðar um hádegi á mánudag. Lilja Tekla segir það huggun harmi gegn að félagið hafi fengið flugið heim endurgreitt, því það var ekki farið, en sá kostnaður hafi að miklu farið í bílferðina heim.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem frestanir út af Covid-19 faraldrinum koma illa við Þrótt. Í mars voru liðin komið suður til Reykjavíkur til að taka þátt í úrslitakeppni bikarkeppninnar þegar ákveðið var að fresta henni út af faraldrinum. Liðin höfðu mætt tímanlega þar sem veður hamlaði færð þeirra og riðlaði dagskrá keppninnar í hitt í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.