Makríllinn virðir engar leikreglur

Hægt hefur gengið hjá austfirsku skipunum sem eru við makrílveiðar í Smugunni undanfarna daga en vonir standa til að bjartara sé framundan. Hafrannsóknastofnun tilkynnti í gær um að meira hefði fundist af makríl í íslensku lögsögunni en undanfarni ár en hæpið virðist að austfirsku skipin taki stefnuna þangað.

„Það var skot í kringum verslunarmannahelgina en síðan fjaraði það út, makríllinn fór yfir í norsku lögsöguna og síld gekk inn á svæðið. Þess vegna hefur gengið illa síðustu dagana.

Nú eru skipin sunnar. Okkar skip segjast sjá fisk og það var ágætis afli á svæðinu í gær, eitt skip fékk 300 tonn og annað 150. Síðan tók við bræla sem á að klárast upp úr hádeginu þannig skipin bíða færis. Fiskurinn hefur líka verið það djúpt að skipin hafa ekki náð honum,“ segir Baldur Marteinn Einarsson, útgerðarstjóri Eskju.

Skip félagsins, Guðrún Þorkelsdóttir og Aðalsteinn Jónsson eru innan um fjölda íslenskra skipa á svæðinu. Þar eru meðal annars Norðfjarðarskipin Barði, Börkur og Beitir auk Hoffells frá Fáskrúðsfiðri. Vilhelm Þorsteinsson og Venus eru á leið á miðin eftir að hafa landað á Norðfirði og Vopnafirði.

Þau hafa síðustu daga fært sig vestar á bóginn, frá norsku landhelgislínunni. „Fiskurinn sem þau fengu við línuna í fyrradag var frekar smár, um 310 grömm. Þau eru komin vestar og fá núna um 400 gramma fisk, sem er þolanlegt.“

Yfir 30 tímar í siglingu

Jón Kjartansson er á Eskifirði, löndun úr honum hófst í gærmorgunn og lýkur um kvöld. Skipið kom með um 900 tonn, þar af er tæplega helmingurinn síld. Skipið fer aftur til veiða að löndun lokinni.

Langt er á miðin. Guðrún er nyrst íslensku skipanna, 405 sjómílur frá heimahöfn á Eskifirði. Siglingin tekur hátt í einn og hálfan sólarhring. „Það fer mikill tími í siglingu. Þess vegna getur staðan á miðunum verið allt önnur þegar skip kemur þangað eftir löndun en þegar það sigldi heim,“ segir Baldur.

Samkvæmt upplýsingum af vef Fiskistofu er búið að veiða um 67 þúsund tonn af 148 þúsund tonna kvóta. Mestu hefur verið landað hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað, tæpum 20 þúsund tonnum, Vilhelm Þorsteinsson hefur veitt mest, rúm 6.200 tonn en þar á eftir kemur Börkur með 6.066 tonn. Fáar sögur eru þó af mokveiði á vertíðinni.

„Vertíðin hefur verið aum að stórum hluta en góðu dagarnir vega þungt. Skipin hafa stundum náð að fylla sig á einum degi. Það þarf ekki marga daga til að staðan líti betur út og í heildina litið hefur vertíðin gengið furðu vel.

Við vonum að fiskurinn fari að gefa sig, það væri gott að geta klárað kvótann. Síðustu ár hefur veiðin klárast um mánaðamótin ágúst/september en það getur allt gerst. Eina sem maður veit er að maður veit ekki neitt því makríllinn fer ekki eftir neinum leikreglum.“

Ólíklegt að veiðarnar færist inn í íslensku lögsöguna

Hafrannsóknastofnun tilkynnti í gær að árlegum leiðangri rannsóknarskipa um landið í júlí hefði mælst meiri makríll og útbreiddari í íslensku lögsögunni en undanfarin ár. Samkvæmt korti sem fylgdi frétt Hafró er makríll mest út af suðurströndinni en einnig mikið úti fyrir Breiðafirði. Þá fylgir sögunni að samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum frá færeyskum og norskum skipum, sem tóku þátt í leiðangrinum, hafi töluvert verið af makríl við Austfirði.

Baldur telur þó ólíklegt að austfirsku skipin leiti á þessi mið nema fréttir berist um töluvert magn makríls. Líklegra sé að skip úr Vestmannaeyjum kanni það fyrst. Við bætist áhættan á að Íslandssíld blandist með í makrílinn, sem sé óhentugt fyrir þau skip sem ekki séu með kvóta í henni.

Aflafréttir greindu frá því í gær að þrír smábátar hefðu veitt makríl. Þeir hafa allir landað í Keflavík, alls tæplega 17 tonnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.