Helgin: Málverkasýning og fjöltefli á Egilsstaðaflugvelli

Mikið verður um að vera á Egilsstaðaflugvelli um helgina, en þar opnar málverkasýning Tolla í dag og morgun býður Hjörvar Steinn Grétarsson skákmeistari til fjölteflis í flugstöðinni.


„Á síðasta ári kom ég að máli við Isavia með þá hugmynd að nýta húsakostinn á flugstöðum landsins til sýningarhalds þar sem þarna væri gott veggjaplás, hátt til lofts og vítt til veggja. Lýsing í flugstöðunum er iðulega góð og mikið rennsli af fólki í gegnum húsinn. Var tekið vel í þessa hugmynd af forráðamönnum Isavia og þegar ráðist í að framkvæma þetta,“ segir Tolli, en sýning hans með 23 nýjum olíumálverkum verður opnuð á Egilsstaðaflugvelli í dag klukkan 16:00.

Sýningin er í boði Isavia, rekstraraðila flugvallarins, en áformað að sýna verk Tolla á fleiri innanlandsflugvöllum á næstu mánuðum. Tolli segir að sýningar hans á flugvöllunum verði vonandi bara þær fyrstu af mörgum. Olíuverkin sem sýnd verða á Egilsstöðum eru öll ný af nálinni, bæði stór og smá eftir því sem húsrúm leyfir og verða öll verkin til sölu.

Fjöltefli í flugstöðinni
Á morgun, laugardag klukkan 11:00, býður Hjörvar Steinn Grétarsson skákmeistari til fjölteflis í flugstöðinni á Egilsstöðum. Þeir sem ná jafntefli eða vinna fá vinninga, auk þess sem þrenn aukaverðlaun verða dregin út.

Þeir sem hafa áhuga á að keppa við Hjörvar eru beðnir um að tilkynna þátttöku á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Einnig verður hægt að skrá sig á staðnum á morgun klukkan 10:45 ef enn verða laus sæti.


Printing Matter í Tækniminjasafninu á Seyðisfirði
Á morgun, laugardag verður til sýnis afrakstur úr Printing Matter sem er þematengd vinnustofa á vegum Skaftfells í samstarfi við Tækniminjasafn Austurlands. Er þetta í þriðja skiptið sem Printing Matter er hleypt af stokkunum en að þessu sinni taka sjö listamenn hvaðanæva úr heiminum þátt í vinnustofunni sem hófst í byrjun september og stendur í þrjár vikur.

Ferlið hefur verið með svipuðu sniði og áður, en lögð er áhersla á bókverk og ólíkar prentaðferðir sem og skapaður vettvangur fyrir þekkingarskipti, samtal og samstarf milli þátttakenda. Leiðbeinendur eru Åse Eg Jørgensen og Litten Nystrøm. Síðustu vikur hefur hópurinn notið fallegra haustlita sem prýða fjörðinn og mikið hefur verið lagt upp úr göngutúrum í nágrenninu á milli þess sem þau vinna að bókverkagerð.

Sýningin fer fram í Tækniminjasafninu milli kl. 16:00-18:00. Allir velkomnir og í boði verður aðstaða fyrir börn að spreyta sig á einfaldri prentun.

Síðasti opnunardagur Salthúsmarkaðarins á Stöðvarfirði
Síðasti opnunardagur Salthúsmarkaðarins á Stöðvarfirði er á morgun, en þar selja heimamenn fjölbreytt handverk. Opið verður frá klukkan 10:00-19:00. 10% afsláttur verður af öllu handverki og boðið verður upp á kaffi og vöfflur gestum að kostnaðarlausu.

 

Hlöðusvar á Bragðavöllum

Í tilefni sumarloka verður svokallað hlöðusvar á Bragðavöllum í Hamarsfirði annað kvöld. „Fólk má eiga vona á léttum, erfiðum og á köflum furðulegum spurningum. Flestar munu þær snúast um svæðið hér umhverfis okkur, sveitina og allt sem henni tengist, vorum reyndar búnir að lofa einungis spurningum úr Bændablaðinu og Búnaðarblaðinu Frey, en við sjáum til,“ segir Eiður Ragnarsson, einn rekstraraðilinn á Bragðavöllum. 

 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar