Margrét María skipuð til að leiða Mannréttindastofnun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. apr 2025 10:24 • Uppfært 01. apr 2025 10:26
Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri á Austurlandi, hefur verið skipuð sem framkvæmdastjóri nýrrar Mannréttindastofnunar Íslands. Stofnunin tók til starfa um síðustu áramót.
Skipan Margrétar Maríu er til næstu fimm ára en hún tók við embætti lögreglustjóra á Austurlandi fyrir sléttum fimm árum. Hún var valin úr hópi 17 umsækjenda.
Margrét María á að baki langan feril sem stjórnandi hjá hinu oinbera. Þannig var hún framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu á árunum 2003-2007 og síðar Umboðsmaður barna í áratug. Eftir það varð hún forstjóri Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar blindra áður en hún kom austur.
Margrét María er lærður lögmaður og starfaði sjálfstætt sem slíkur áður en líka sem fulltrúi sýslumanns á nokkrum stöðum á landinu. Hún hefur verið prófdómari og leiðbeint nemendum í lokaritgerðum sínum við íslenska háskóla.
Mannréttindastofnun varð til með lögum um mitt síðasta ár. Henni er ætlað að efla og vernda mannréttindi á Íslandi eins og þau eru skilgreind í íslenskum lögum og alþjóðlegum skuldbindingum.