Matur er orðinn órjúfanlegur þáttur af ferðalögum

Norræn ráðstefna um mat og ferðamennsku verður haldinn á Egilsstöðum á morgun. Skipuleggjendur ráðstefnunnar segja kjörið að halda ráðstefnuna eystra þar sem auðvelt sé að komast í beint samband við framleiðendur.

Nordic Food in Tourism er samstarfsverkefni átta Norðurlandaþjóða sem hafa unnið að framtíðargreiningu matvæla í ferðaþjónustu á árunum 2019-2021 og er styrkt af norrænu ráðherranefndinni.

Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á ráðstefnunni í Valaskjálf á Egilsstöðum á morgun. 250 manns hafa þegar skráð sig, þar af munu 80 sitja ráðstefnuna í eigin persónu. Um helmingur þeirra kemur erlendis frá.

Á ráðstefnunni verður fjallað um strauma og stefnur sem tengjast matvælaframleiðslu, mataræði og mat í ferðaþjónustu. Rýnt verður í breytingar og tækifæri sem felast í norrænum mat, sjálfbærum lífsstíl og matarupplifunar innan ferðaþjónustu ásamt því að gestum verður að sjálfsögðu boðið að smakka góðgæti úr nærsamfélagi Austurlands.

Austurland er gott sýnidæmi

Íslenski ferðaklasinn, Matís og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leiða verkefnið. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir frá ferðaklasanum, segir ánægjulegt að halda svo stóra ráðstefnu á Austurlandi. Því fylgi áskoranir en að mörgu leyti henti svæðið undir slíkan viðburð.

„Mig langaði að sýna að við þurfum ekki að halda allar ráðstefnur í Reykjavík, þótt það sé að einhverju leyti flóknara. Ef við ætlum að dreifa ferðafólki þá þurfum við sjálf að taka fyrsta skrefið.

En Austurland er líka gott sýnidæmi því hér er mikil matarkista. Nálægð við framleiðendur er mikil, hægt að heimsækja þá og sjá frá fyrstu hendi hvernig fólk hugsar framsækið,“ segir hún.

Í tengslum við ráðstefnuna verður haldið Matarmót á föstudag þar sem framleiðendur kynna vörur sínar. Ásta segir Austurland fá mikla og jákvæða athygli í tengslum við ráðstefnuna.

„Öll Norðurlöndin taka þátt í þessari ráðstefnu og það er mikill áhugi frá þeim á henni. Því er frábært fyrir Austurland að vera sviðið þar sem sögurnar eru sagðar. Við getum notað matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu til að fræða fólk um menningu og sögu sem er rík eystra,“ segir hún.

Norðurlöndin hafa ímynd hreinleika

Á ráðstefnunni er ekki bara fjallað um ferðamenn og mat heldur einnig breytingar á matarræði og viðhorf til matar. Hluti þess byggir á stórri alþjóðlegri rannsókn sem gerð var á vegum verkefnisins.

„Það eru að verða miklar breytingar. Við sjáum að fólk sem hugsar til framtíðar vill vita hvaðan maturinn kemur og að hann sé framleiddur með sem sjálfbærustum hætti. Í könnuninni kom í ljós að heimurinn tengir Norðurlöndin við hreinleika, vellíðan og heilbrigði.

Ísland á mikið inni í að kynna sínar framleiðsluaðferðir, sem undanfarin 200 ár hafa verið einar þær sjálfbærustu í heiminum. Geymsluaðferðirnar okkar eru merkilegar. Við höfum líka náð árangri í að nýta staðbundið hráefni. Hvernig við nýttum allt sem til féll kom til að þörf en það hefur líka fært okkur þekkingu.

Matur er órjúfanlegur hlut af ferðalögum alla og fólk vill sannarlega fara til landa þar sem það getur rakið hvaðan maturinn kemur.“

Enn er opið fyrir skráningu á netútsendingu ráðstefnunnar. Hægt er að gera það á www.nordicfoodtourism.com. Fyrirlestrarnir verða allir á ensku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.