Skip to main content

Með því mesta af snjó sem Vopnfirðingar hafa séð eftir eina nótt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jan 2025 11:44Uppfært 20. jan 2025 11:45

Skólar og fleiri þjónustustofnanir og fyrirtæki eru lokaðar á Vopnafirði vegna ófærðar. Þar er óvenju mikið af snjó og hann blautur að auki.


Ekkert skólahald verður á Vopnafirði í dag. Opnun þjónustustofnana á borð við heilsugæslu, lyfsölu og íþróttahúss hefur dregist.

„Það hefur mökksnjóað þungum og blautum snjó. Heimamenn segja mér að þetta sé með því mesta sem þeir hafa séð á einum sólarhring,“ segir Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.

Seinlegt er að moka götur vegna þess hve snjórinn er þungur og því meira eða minna ófært innanbæjar. Útlit er fyrir að verkið taki tíma því vegna þess hve mikið hefur snjóað þarf að finna leiðir til að koma snjónum í burtu.

Fólk annað hvort gekk til vinnu eða ferðaðist á milli á mikið breyttum jeppum. Valdimar segir að enn snjói mikið á Vopnafirði. Frá hreppsskrifstofunni sjáist varla niður í næstu götu en á þess á milli styttir upp.

Myndir: Valdimar O. Hermannsson