Meint morðvopn fannst í fórum þess ákærða við handtöku
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. feb 2025 17:10 • Uppfært 10. feb 2025 17:11
Hamar, sem talinn er hafa verið notaður til að ráða eldri hjónum í Neskaupstað bana í ágúst, fannst í fórum þess ákærða, Alfreðs Erlings Þórðarsonar, þegar hann var handtekinn. Alfreð tjáði sig lítið um atvikið þegar aðalmeðferð málsins hófst í morgun. Vitni sögðu andlegri heilsu hans hafa hrakað verulega fyrir atvikið.
Aðalmeðferðin fer fram í dómsal Héraðsdóms Reykjavíkur, þótt málið teljist rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands. Alfreð Erling mætti fyrstur fyrir dóminn í morgun og nýtti sér rétt sinn til að tjá sig sem minnst.
Hann vildi ekki gefa skýrslu heldur vísaði til greinargerðar sinnar og skýrslna hjá lögreglu. Hann staðfesti þó að hafa farið í hús þeirra látnu, Rósu G. Benediktsdóttur og Björgvins Ólafs Sveinsonar, daginn sem þau létust, sagðist hafa átt leið framhjá.
Fram hefur komið að Alfreð Erling hafi frá árinu 2016 glímt við geðræn veikindi. Austurglugginn og Morgunblaðið greindu frá því í síðustu viku að heimild var til að vista hann nauðungarvistun á geðdeild þegar morðin voru framin. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til að fara yfir sögu andlegra veikinda þegar hann var spurður út í hana í dóminum.
Hann neitaði að tjá sig um myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu sem saksóknari vildi bera undir hann. Þar með varð vitnisburðurinn endasleppari heldur en gert hafði verið ráð fyrir þannig að dagskrá dagsins var flýtt þegar tókst að ná í önnur vitni sem bókuð höfðu verið síðar.
Ömurleg aðkoma
Vitnaleiðslur dagsins fóru að miklu leyti í að fá lýsingar þeirra sem fyrst komu á vettvang: lögreglu, sjúkraflutningamanna og fjölskylduvina þeirra látnu en líka vitna sem stutt gátu þá kenningu að Alfreð Erling hefði sannarlega verið í húsi Rósu og Björgvins að kvöldi 21. ágúst í fyrra.
Bróðir Heiðars og tveir fjölskylduvinir komu fyrstir á vettvang. Þeir sögðu meðal annars frá því að Alfreð Erling þekkti til hjónanna í gegnum vinskap fjölskyldnanna. Rósa og Björgvin hefðu hugsað vel um Alfreð, stundum gefið honum að borða þegar hann var svangur og jafnvel prjónað á hann sokka.
Þeir lýstu því hvernig þeir hefðu farið á vettvang eftir að einum þeirra tókst ekki að ná í hjónin um morguninn. Aðkoman hefði verið ömurleg, „allt í blóði“ og strax ljóst að fólkið væri látið. Einn þeirra, sem tengist inn í fjölskyldu Alfreðs, sagðist hafa óttasleginn af því að vita ekki hvar Alfreð væri niðurkominn. Viðkomandi sagðist hafa heyrt það í gegnum fjölskylduna að Alfreð væri orðinn mjög veikur.
Í umfjöllun Morgunblaðsins og Austurgluggans í síðustu viku kom fram að Alfreð Erling hefði talið sig sjá guðlegar verur og púka í myndum og að hann hefði strokið af geðdeild á Akureyri í september 2023, þar sem hann hafði verið úrskurðaður til vistunar með dómi. Vitnið ítrekaði þessar frásagnir og sagði að við það hefðu samskiptin orðið enn minni milli Alfreðs og fjölskyldunnar.
Vitnin sögðu að þau hefðu strax grunað Alfreð Erling. Eins að þau hafðu tekið eftir að bíll hjónanna var ekki heima. Fljótlega kom á daginn að hann hafði tekið bílinn og keyrt á honum til Reykjavíkur.
Skóförin nokkuð traust sönnunargagn
Lögreglumaður sem kom að þeirri handtöku sagðist hafa átt stutt samtal við Alfreð Erling áður en rannsóknarlögreglumenn tóku við yfirheyrslum. Hann sagðist aldrei hafa átt slíkt samtal, Alfreð hefði bara talað um guð, djöfulinn, Jesú Krist og anda, hvernig hann ynni í gegnum þá. Að hann hefði verið á leiðinni að Hallgrímskirkju að vinna verk fyrir guð eða djöfulinn, að kveikja þar á krossi. Lögreglumaðurinn lýsti Alfreð Erling sem rólegum og samvinnuþýðum. Sá sagði einnig að storknað blóð hefði verið á fötum hins ákærða við handtökuna.
Lögreglumaður af tæknideild, sem annaðist vettvangsrannsókn, sagði skóför ákærða hafa fundist á vettvangi. Hann hefði stigið í nýlegt blóð og sporað út. Skóförin séu nokkuð áreiðanleg, för eftir aðra sem komu á vettvang síðar væru allt annars eðlis.
Sá sagði einnig frá því að strax á vettvangi hafi vaknað grunur um að hamar hefði verið notaður til verksins. Samkvæmt ákæru á Alfreð Erling að hafa ráðið hjónunum bana með ítrekuðum hamarshöggum í höfuð. Þegar Alfreð var handtekinn fannst hamar í bílnum.
Versnandi heilsa frá 2021
Það lögreglu- og sjúkraflutningafólk sem kom fyrst á vettvang bar frekari vitni um ófagra aðkomu. Út frá því blóðmagni sem fannst hefði vaknað grunur um skotárás. Það hefði verið víða á neðri hæð hússins en slóðin legið inn á baðherbergi þar sem fólkið fannst. Eins sögðu þau frá að þremenningarnir sem fóru fyrstir inn í húsið hefðu verið í miklu áfalli.
Það fólk sem þekkti til Alfreðs og bar vitni í dag sagði frá því að ástand hans hefði verið slæmt, hann verið illa til fara og takmarkað hirt um sig. Verslunareigandi sagði ástand Alfreðs hafa farið að versna eftir 2021 og hann hætt að koma til að kaupa vörur til listmálunar þegar hann var kominn í skuld.
Alfreð hefði séð ýmislegt í myndunum, meðal annars guðlegar verur, sem sennilega varð til þess að hann ákvað loks að kveikja í þeim inn í Norðfjarðarsveit. Um slíkar sýnir hefði hann ekki talað fyrir 2020. Vitnið lýsti Alfreð Erling sem greindum og miklum verkmanni.
Nágrannar hjónanna sögðu frá því að þau hefðu heyrt dynki úr hinni íbúðinni í 5-7 mínútur kvöldið sem morðin áttu sér stað. Þau hafi talið að verið væri að færa til eldhússtóla. Þau hafi verið litið yfir til hjónanna og séð Alfreð Erling í dyragættinni. Vitnin staðfestu að þau þekktu þann ákærða í sjón.
Aðalmeðferðin heldur áfram á morgun
Aðalmeðferð málsins heldur áfram á morgun og miðvikudag ef þurfa þykir. Alfreð Erling er einnig ákærður fyrir að hafa verið með hníf í fórum sínum þegar hann var handtekinn á Egilsstöðum þann 12. maí síðastliðinn. Hann hefur játað vopnalagabrot. Sama dag brann húsnæði Austurljóss. Grunur leikur á að kveikt hafi verið í.
Dómurinn er fjölskipaður, í honum eru tveir dómarar og einn geðlæknir. Við þingfestingu málsins kom fram að niðurstaða geðmats á Alfreð Erling væri „óvenju skýrt“ og virtist það átt við sakhæfi hans. Samkvæmt lögum skal ekki refsa mönnum hafi þeir vegna veikinda ekki getað stjórnað gjörðum sínum á þeirri stundu sem þeir frömdu tiltekinn verknað.
Greinin er unnin í samvinnu Morgunblaðsins og Austurfréttar