Meirihlutasamkomulag undirritað rafrænt

Um sjötíu kílómetrar í loftlínu skildu að oddvita Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er þeir undirrituðu samkomulag um samstarf flokkanna í meirihluta í nýju sveitarfélagi á Austurlandi í dag. Uppbygging nýs leikskóla á Egilsstöðum er meðal þeirra verkefna sem meirihlutinn hyggist ýta úr vör á kjörtímabilinu.

Það var í anda rafrænnar stjórnsýslu, sem er meðal áherslumála í meirihlutasamkomulaginu, sem skrifað var undir samkomulagið með rafrænum skilríkjum. Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks, var á Egilsstöðum en Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks, á Djúpavogi.

Þannig var samkomulagið einnig kynnt fyrir fréttamönnum á fjarfundi. Hann gekk þó ekki vandkvæðalaust því heyrnartólin, sem Gauti sagðist hafa notað í áraraðir, brugðust í byrjun fundar.

Mikilvægt að hefja stór verkefni

Þótt kjörtímabilið sé aðeins rúmt eitt og hálft ár er komið víða við í samkomulaginu enda verkefnin nær í kjölfar sameiningar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, sem tekur formlega gildi með fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar. Meirihlutasamkomulagið, sem er sjö síður að lengd, skiptist upp í stjórnsýslu, skipulagsmál, samgöngur og mannvirki, atvinnumál, menningarstarfsemi, fræðslumál, frístundir, heilbrigðis- og félagsmál og dreifbýlismál

„Kjörtímabilið er óvenju stutt og það er ljóst að margt af því sem komið er inn á í meirihlutasamkomulaginu eru verkefni sem við munum hefja en ekki klára öll. Það er hins vegar mjög mikilvægt að hefja vegferðina í ákveðnum stórum verkefnum,“ sagði Stefán Bogi.

Börnum tryggt leikskólapláss frá 12 mánaða aldri

Þar er komið inn á atriði eins og rafrænar lausnir, styttingu boðleiða og sveitarfélagið verði með rekstur í öllum núverandi byggðakjörnum. Hefjast á handa við gerð nýs aðalskipulags og tryggja að skipulagðar lóðir fyrir bæði atvinnu- og íbúðahúsnæði sé ávallt í boði.

Fylgja á eftir þeim samgönguverkefnum sem þegar eru í vinnslu auk þess að tryggja að flugvöllurinn á Egilsstöðum uppfylli kröfur sem fyrsti varaflugvöllur. Samhliða því verði hugað að framtíðarmöguleikum þar fyrir millilandaflug og vöruflutninga.

Í skólum stendur til að auka samnýtingu á bæði starfsfólki og búnaði. Gauti sagði að meðal annars yrði horft til reynslu síðustu mánaða til að nýta tæknina þannig að kennarar með sérfræðiþekkingu geti kennt á fleiri en einum stað í einu.

Því er heitið að tryggja leikskólapláss fyrir börn frá 12 mánaða aldri og gangi það ekki eftir í þeirra heimabyggð verði foreldrum greitt daggjald til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrvals. Til að tryggja leikskólaplássin á að velja stað fyrir og hanna nýjan leikskóla á Egilsstöðum. Áður verður þó lokið við nýjan leikskóla í Fellabæ, sem er þegar í gangi. Þá mun sveitarfélagið greiða frístundastyrk til foreldra barna á aldrinum 4-18 ára. Hann verður hærri til barna í dreifbýli þannig þau geti sótt frístundir í þéttbýli.

Byggðaþróunarverkefni í sveitum

Leggja á áherslu á að grunnheilbrigðisþjónusta verði tryggð í hverjum byggðakjarna auk þess sem tækjakostur til fullnaðarbráðagreiningar komi á heilsugæsluna á Egilsstöðum.

Ráðist verður í byggðaþróunarverkefni fyrir einstök svæði í dreifbýli, í anda brothættra byggða, með það að markmiði að styrkja búsetu og fjölga atvinnutækifærum í sveitum, sem Stefán Bogi sagði „brauðnauðsynlegt verkefni.“ Þá er stefnt á að efla farsímasamband, ljúka lagningu ljósleiðara, bæta snjómokstur og greiða fyrir lagningu þriggja fasa rafmagns.

Björn bæjarstjóri

Til stendur að semja við Björn Ingimarsson, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, um að verða fyrsti bæjarstjóri nýja sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn fær forsæti bæjarstjórar auk formennsku í byggðaráði og fjölskylduráði en Framsóknarflokkurinn í umhverfis- og framkvæmdaráði. Ekki hefur verið ákveðið hvernig verkum verði skipt innan raða Sjálfstæðisfólks en Stefán Bogi verður formaður umhverfis- og framkvæmdanefndar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.