Meirihlutaviðræður halda áfram í dag

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks halda í dag áfram viðræðum um myndun meirihluta í nýju sveitarfélagi á Austurlandi. Oddviti Sjálfstæðisflokks segir viðræður ganga vel þótt þær séu skammt á veg komnar.


„Viðræðurnar ganga ágætlega. Við ákváðum í gær að ganga til formlega viðræðna. Við funduðum þá og fundum aftur í dag,“ segir Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks.

Hann kveðst vonast til að hægt verði að birta málefnasamning „fljótlega“ en segist ekki getað gefið upp nánari tímasetningu enda séu vinna við hann „á byrjunarstigi.“

Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra fulltrúa af ellefu í kosningunum á laugardag. Ekki er hægt að mynda tveggja flokka meirihluta án hans en framboðið gat valið um að gera það með Austurlista, sem fékk þrjá fulltrúa, eða Framsóknarflokki sem fékk tvo.

Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, gagnrýndi í samtali við Austurfrétt í gær ákvörðun Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði verið að sniðganga vilja kjósenda með því að tvö stærstu framboðin ræddu ekki saman auk þess sem hún benti á að aðeins ein kona yrði í meirihluta ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ynnu saman. „Ég hef engu við þetta að bæta. Þetta er hennar skoðun,“ sagði Gauti aðspurður um orð Hildar.

Hún sagði Austurlistann einnig hafa hug á að mynda samvinnustjórn allra framboða, líkt og tilkynnt var um á Akureyri í gær, til að takast á við erfið málefni framundan. Gauti segir slíkan möguleika ekki hafa verið til umræðu og ekki hafi verið haft samband við hann um þá leið.

Aðspurður um hvers vegna Sjálfstæðismenn hefðu valið að ræða fyrst við Framsóknarflokk vísaði Gauti til yfirlýsingar sem oddvitar listanna sendu frá sér seinni partinn í gær. „Við erum að horfa til málefna, þess trausts sem ríkir á milli fulltrúanna og þeirrar reynslu sem til staðar er í sveitastjórnarmálum,“ segir hann.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.