Skip to main content

Mengun staðfest í vatnsbóli Stöðfirðinga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. okt 2025 12:03Uppfært 03. okt 2025 12:03

Staðfest hefur verið að vatnsból Stöðfirðinga er mengað eftir mikla rigningu fyrir viku. Íbúum er því ráðlagt að sjóða vatn.


Frumniðurstöður fyrir sýni sem Heilbrigðiseftirlit Austurlands tók á Stöðvarfirði á miðvikudag benda til þess að mengun hafi borist í vatnsbólið í kjölfar mikils vatnsveðurs undanfarna daga.

Þeim tilmælum er því beint til íbúa að sjóða neysluvatn. Óhætt er að nota vatnið til annarra þarfa, svo sem til baða þar sem fjöldi gerlanna var innan þeirra marka, sem miðað er við að megi vera í baðvatni í náttúrunni.

Áfram verður fylgst með stöðunni á Stöðvarfirði og íbúar verða upplýstir um þróun mála eftir því sem fram vindur, að því er fram kemur í tilkynningu Fjarðabyggðar.

Þetta er í þriðja skiptið á um tveimur mánuðum sem þessi staða kemur upp. Búið er að panta geislunarbúnað sem á til framtíðar að tryggja að vatnið á Stöðvarfirði sé hreint. Vonast er til að hann verði kominn í notkun um miðjan október.