„Mér fannst fjallið springa fyrir framan augun á mér“

Tíma tekur fyrir Seyðfirðinga að treysta aftur fjöllunum fyrir ofan bæinn eftir aurskriðurnar sem féllu þar um miðjan desember. Um þrjátíu manns bíða enn eftir upplýsingum um hvort það geti búið aftur í húsum sínum á svæðinu þar sem stóra skriðan féll 18. desember. Íbúi sem horfði á skriðuna koma niður ofan heimilis síns segist enn upplifa það augnablik.

„Hvert skipti sem ég hugsa um þetta er ég kominn beint aftur í eldhúsgluggann. Ég sé fjallið fyrir mér springa aftur og aftur og hugsa endalaust hvað ég hefði átt að gera öðruvísi,“ skrifar Seyðfirðingurinn Jafet Sigfinnsson um upplifum sína af skriðuföllunum á Seyðisfirði og eftirmála þeirra.

Fjölskylda Jafets býr í Múla, Hafnargötu 10 sem stendur næst Búðará að utanverðu. Það stendur á hrygg sem klauf skriðuna í tvennt þannig að fjöldi fólks sem var á svæðinu bjargaðist. Hann var heima ásamt Jóni bróður sínum og föður er skriðan féll og horfði á hana úr eldhúsglugganum.

Jafet, sem stundar nám í Reykjavík, og bróðir hans komu austur tíu dögum fyrir jól. Jafet hefur frásögn sína á því að hann hafi verið efins um að fara austur vegna Covid-veirunnar en fjölskyldan hafi ákaft lýst því að hún vildi fá hann. Hann lýsir því að þeir bræður hafi á leiðinni lent í óhöppum sem hafi fengið hann til að hugsa að forlögin væru að reyna að koma í veg fyrir ferð þeirra.

Á leiðinni fengu þeir símtali frá móður þeirra, Aðalheiði Borgþórsdóttir fulltrúa sveitarstjóra á Seyðisfirði, um að skriða hafi fallið á bæinn. Jafet kveðst hafa hugsað að rétt væri að snúa við en þótt þeir vera komnir heldur langt. Eins hafi æskuheimilið verið enn á öruggu svæði, hann sannfærður um að klettarnir fyrir ofan það vernduðu það auk þess sem fjölskyldan væri vön að fylgjast með fossinum í Búðaránni, þegar hann hyrfi væri hætta á ferðum.

Steypubíllinn nýfarinn

Að kvöldi fimmtudags var heimilisfólkið í Múla varað við að sofa ekki í þeirri hlið hússins sem snéri upp í fjallið. Það vaknaði síðan við þau tíðindi að ný skriða hefði fallið og hrifið með sér húsið Breiðablik. Jafet segir tíðindin hafa verið skell og súrrealískt að sjá húsið standa á öðrum stað en vanalega.

Þennan dag horfðu Seyðfirðingar upp í hlíðina og Jafet kveðst hafa heyrt af fólki sem óttaðist að Botnarnir myndu ryðjast fram og yfir byggðina. Hann hafi þurft út í bæ og heyrt drunur í hlíðinni ofan fjallsins við heimkomu en engar staðfestar fregnir hafi verið um skriður.

Í Múla var þennan dag verið að steypa í kjallara hússins og fengið leyfi hjá yfirvöldum fyrir að fá steypubíl á staðinn. Sá kom klukkutíma fyrr en ætlað var sem þýddi að hann var farinn um klukkan tvö, um klukkustund áður en stóra skriðan féll ásamt sex manns sem unnu að framkvæmdunum.

Öskraði nei í von um að vakna upp af martröðinni

Um klukkan hálf þrjú situr fjölskyldan saman í Múla að borða síðbúin hádegisverð. Aðalheiður fer að honum loknum aftur niður í Ferjuhús á vaktina en feðgarnir verða eftir heima. Jafet segist skömmu síðar hafa verið í blómaskála Múla að lesa þegar hann heyrir bróður sinn segja að fossinn sé orðinn alveg svartur. Þeir ræða saman og telja sig enn sjá vatn í honum.

Bróðirinn hafi ákveðið að fara upp í herbergi sitt og slökkva á tölvunni sinni til öryggis ef rafmagnið færi. „Hann kemst hálfa leiðina upp stigann þegar ég byrja að öskra.

Næst tók við atburðarrás sem spilast reglulega í hausnum á mér eins og hún hafi gerst fyrr í dag. Ég gleymi því aldrei hvernig mér leið þegar mér fannst sem fjallið hefði sprungið fyrir framan augun á mér. Tilfinningaflóðið sem tók við var álíka þungt og aurflóðið sem stefndi á húsið. Rauður hiti af hræðslu helltist yfir mig. Mér fannst sem fossinn væri að svíkja mig því ég taldi okkur örugg en núna stefndi hlíðin öll á okkur feðgana. Ég er að fara að deyja.“

Jafet rifjar upp að sem barn hafi hann fengið martraðir um hættu úr fjallinu. Hann hafi því í sífellu öskrað „nei“ í von um að vakna. „Í þetta skiptið var ekki um draum að ræða. Þetta var í alvörunni að gerast.“

Hann segir að öskrin í sér hafi eflaust orðið til þess að föður hans og bróður hafi brugðið. Jón hafi viljað fá þá upp á efri hæðina en faðir þeirra fór til Jafets í blómaskálann þar sem þeir stóðu upp við vegg. Þar kveðst Jafet hafa beðið þess að deyja og orðið enn hræddari þegar rafmagnið fór.

„Við erum á lífi!“

Úr blómaskálanum sáu þeir þegar skriðan lenti á Framhúsi, sem stendur hinu megin Búðarárinnar, og eyðilagði það. „Ég öskra þegar ég sé skúrinn hinumegin við lækinn splundrast. Þvílíkur og annar eins kraftur í þessari skriðu. Hún skellur í gegnum bílastæðið okkar og rífur með sér allt sem á vegi hennar verður.

Framhúsið fær á sig höggið sekúndu seinna og eina sem eftir stendur er efri hæðin. Jón hafði rétt fyrir sér. Það hljóta að vera einungis nokkrar sekúndur í að skriðan skellur á Múla. Fleiri og fleiri lög af drullu safnast saman í bílastæðinu.

Skyndilega er Jón kominn niður aftur. Húsið stendur ennþá. Hvernig í andskotanum stendur það ennþá? Ég hleyp inn í eldhús. Skriðan hefur stoppað 10 metra fyrir ofan garð. Ég fer eiginlega bara í meiri geðshræringu uppúr þessu.

Mamma hringir í mig. Eða kannski hringdi ég í hana. Hef ekki hugmynd. Ég græt í símann „við erum á lífi, við erum á lífi!“ Mamma grætur í símann á móti. Hún hafði horft á þetta allt gerast frá ferjuhúsinu. Björt [systir þeirra] líka. Hársbreidd frá því að hlaupa inn á hamfarasvæðið til að leita að okkur í rústum æskuheimilis okkar. Jón segir að dammurinn fyrir ofan hús hafi bjargað okkur. Ég trúi því enn heilshugar. Einhvern vegin standa öll trén líka enn í garðinum,“ skrifar Jafet.

Erfitt að horfa upp á heimilið óvarið

Hann segir þá feðga hafa hugsað sig um augnablik hvert þeir ættu að fara en ákveðið að niður að smábátahöfninni. Þar hafi björgunarsveitarfólk tekið á móti þeim. Jafet kveðst aldrei hafa orðið eins feginn að sjá nokkurn. Þaðan hafi þeim verið bent á að fara að ferjuhúsinu þar sem mæðgurnar voru. „Þarna tóku við mjög þung en líklega einhver bestu faðmlög sem ég hef átt við Björt og mömmu.“

Jafet lýsir því að þar hafi tekið við erfið bið. Lýsingar fólks hafi verið á þá leið að „fjallið væri farið“ og ástandið á svæðinu þannig að hann hafi talið að ekki væri spurning um hvort einhver hefði dáið í hamförunum heldur hve margir.

„Þegar ég kom fyrir neðan hús og sá rauðu skemmuna liggja eins og krumpaða ál dós í sjónum áttaði ég mig hversu stór skriðan hefði verið en náði samt ekki að meðtaka þetta magn. Seinna meir komst ég að því hvað það voru raunverulega margir á þessu svæði og það að allir hafi lifað af átti ég lengi erfitt með að skilja. Fjórtán hús ónýt eða farin. Tuttugu-og-eitthvað manns á svæðinu. Ekkert manntjón. Lygilegt.

Skruðningarnir ætluðu ekki að hætta og ég beið alltaf eftir að það kæmi önnur stór skriða sem tæki húsið í þetta skiptið. Hjartað var í molum. Elsku Múli, æskuheimili mitt og griðastaður til þrjátíu ára. Það var svo erfitt að horfa út eftir og sjá hann standa þarna óvarinn og bíða eftir því að sjá hvort fjallið myndi slá frá sér aftur og hrífa allar minningarnar frá mér á augabragði.“

Fannst hann ekki geta treyst fjallinu lengur

Um klukkustund eftir skriðuna fengu bæjarbúar skilaboð um að fara í félagsheimilið Herðubreið þar sem tilkynnt var um að bærinn yrði rýmdur. Jafet lýsir því að allir þar hafi verið í uppnámi, líka þeir sem stjórnuðu rýmingunni. Sjálfur kveðst hann hafa viljað yfirgefa bæinn sem fyrst.

Fjölskyldan fékk aðsetur í bústað á Fljótsdalshéraði. Jafet segir að honum hafi þótt erfitt að hugsa um jólahald, jafnvel viljað sleppa því, en niðurstaðan hafi verið að halda upp á jólin hjá systur hans á Seyðisfirði. Það hafi verið erfitt, ýmislegt sem minnti á atburðina, meðal annars hafi gnauðið í vindum vakið upp minningar um drunurnar í fjallinu.

„Eini tíminn sem ég var raunverulega rólegur var þegar ég var úti og sá fjallið. Mér fannst eins og ég gæti ekki treyst því lengur þegar það var ekki í augnsýn en þegar ég sá það fann ég töluvert meiri ró. Björt benti mér seinna meir á að í staðinn fyrir að hugsa að fjallið hafi svikið mig ætti ég að hugsa að það hafi frekar gert allt sem í valdi þess var til þess að vernda okkur. Það þykir mér töluvert fallegri hugsun.“

Jafet kveðst hafa fundið það snemma að honum yrði ekki vært heima á Seyðisfirði og hann því snemma tekið stefnuna suður aftur. Þeir bræður hafi farið 30. desember en það hafi tekið á, Jafet hafi liðið eins og hann væri að svíkja bæinn sinn á ögurstundu auk þess sem þetta yrðu hans fyrstu áramót án foreldra sinna.

En minningarnar eru ekki horfnar þótt suður sé komið. Jafet lýsir því að hann hafi átt erfitt með svefn alla tíð frá því skriðan féll og ítrekað vaknað upp úr martröðum. Þá eigi hann erfitt með að festa hugann við annað og hann fletti stöðugt fréttamiðlum eftir nýjum upplýsingum að heiman.

„Hvernig verður að koma heim næst?“

Múli stendur enn en er á rýmingarsvæði þannig að foreldrar hans hafa ekki fengið að snúa heim. Svo verður áfram fram yfir helgi. Jafet rifjar líka upp minningar úr húsunum sem eyðilögðust í skriðunni áður en hann veltir fyrir sér hver framtíðin verði og hvernig verði að koma næst austur.

„Það hryggir mig enn að sjá hvernig hefur farið fyrir þessum gersemum. Hvernig verður eiginlega að koma heim næst?“

Þessir atburðir markar skil í sögu Seyðfirðinga og verða eflaust margir sem munu hugsa um sögu bæjarins sem skipt í tvennt: fyrir skriðu og eftir skriðu. Bæjarmyndin hefur gjörbreyst, traust Seyðfirðinga til fallegu fjallgarðanna okkar hefur dvínað og öryggistilfinninguna þarf að vinna upp aftur hjá þeim sem áður treystu því blindandi þegar okkur var sagt að það sé ekkert að óttast. Ég er einn af þeim sem þarf að byggja upp traust mitt aftur en það tekur sinn tíma.

Ég kem heim aftur einn daginn og ég mun treysta fjöllunum og fossinum mínum aftur en þetta mun taka sinn tíma. Eins og Ómar Bogason sagði: „Seyðisfjörður mun rísa á ný, sólin mun aftur skína á fjörðinn og skriðan verður aftur græn“.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.