„Mér var gefin þrautseigja í vöggugjöf“

„Það var í fyrsta skipti í haust sem mér hálf féllust hendur og ég áttaði mig á því að ég var farin að velta vöngum yfir því hvort við ættum að loka þessu,“ segir Una Sigurðardóttir, sem rekur Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði ásamt manni sínum, Vincent Wood og Rósu Valtingojer. Framtíð miðstöðvarinnar er nú í hættu fáist ekki fé til þess að ráðast í gagngerar endurbætur á húsnæðinu.


Sköpunarmiðstöðin er samvinnufélag sem stofnað var árið 2011 um kaup og rekstur á fyrrum frystihúsi Stöðvarfjarðar. Um er að ræða tilraunaverkefni í byggðarþróun á sviði menningar, menntunar og atvinnusköpunar.

Rósa hóf uppbygginguna á Sköpunarmiðstöðinni árið 2011 en Una og Vinny komu inn í verkefnið vorið 2014. Þegar Rósa tók við húsinu var ástand þess mjög slæmt, en engin starfsemi hafði verið í því síðan frystihúsinu var lokað árið 2005. Í húsinu var hvorki rafmagn eða rennandi vatn, velflestir gluggar þess voru brotnir, þakið lekt, pípulagnir voru að mestu ónýtar og svo mætti lengi telja. Ljóst var að ráðast þyrfti í miklar framkvæmdir og viðgerðir á byggingunni og hafa þær staðið yfir allar götur síðan.

„Búið var að koma mörgum grunnstoðum í lag þegar við komum, enda hef ég aldrei séð eins þreytta manneskju og Rósu á þeim tíma,“ segir Una, en þau Vinny tóku fljótlega við rekstri miðstöðvarinnar að mestu. „Fyrsta veturinn vorum við alltaf í kuldagalla í vinnunni því þá var kaffistofan eina upphitaða rými hússins. Það var enginn peningur til, við gátum ekki einu sinni keypt skrúfupakka. Við komumst í samband við smiðina sem voru að taka niður leikmyndina í Fortitude á Reyðarfirði og fengum að hirða timbur og gamlar skrúfur upp af gólfinu hjá þeim. Ég er ekki að grínast.

Ástandið var slæmt og var mjög erfitt allt fram til haustsins 2016, en þá fórum við að uppskera af erfiðinu og höfðum meiri peninga til að moða úr. Okkur hafði tekist að endurskipuleggja starfsemina og koma upp tekjuaflandi aðstöðu, gátum verið með starfsnema og sjálfboðaliða okkur til halds og trausts.“

Allt að 80 listamenn í Sköpunarmiðstöðinni á ári
Sköpunarmiðstöðinni er ætlað að hýsa fjölþætta aðstöðu og atvinnuskapandi starfsemi en þar eru verkstæði, vinnustofur og glæsilegt hljóðver. Sum þessara verkstæða eru nú þegar fullbúin, grunnur hefur verið lagður að mörgum þeirra sem þarfnast frekari framkvæmda, stór hluti af tækjabúnaði er þegar til staðar. Þá er áætlaði að koma upp iðnaðareldhúsi og veitingastað í framtíðinni, sem og skólastofum og gestaskála.

Fjölmennasta listamannadvöl á Austurlandi er rekin í Sköpunarmiðstöðinni, en þar dvelja að meðaltali sjö listamenn í mánuði, eða um 80 manns á ári. Una segir listamannadvölina helsta tekjustofn miðstöðvarinnar og af henni fari gott orðspor, enda aðstaðan frábær og starfsandinn góður.

„Mér finnst ótrúlega gaman að reka Sköpunarmiðstöðina og ég held að ég sé bara nokkuð góð í því. Ég hef reyndar engan tíma til þess að vera myndlistamaður en ég er ég ekki á neinum bömmer yfir því, það koma tímar. Reynslubankinn minn hefur stækkað og dafnað, þetta er magnaður skóli og ég hef vaxið mikið sem einstaklingur á þessum árum.“

„Hefur alltaf tekist að búa til ótrúlega mikið úr rosalega litlu“
Una segir hluta af framtíðarsýn Sköpunarmiðstöðvarinnar vera að koma upp öflugu samstarfi við skólana í landinu. „Við höfum hins vegar tekið þá afstöðu að úr því verði ekki fyrr en búið er að gera nauðsynlegar úrbætur á byggingunni. Á árabilinu 2011-2017 höfum við fengið 13,6 milljónir í styrki en á sama tíma erum við búin að velta um 52 milljónum. Ég held að við séum bara göldrótt að því leyti að okkur hefur alltaf tekist að búa til ótrúlega mikið úr rosalega litlu. Verkefnið hefur alltaf verið fjársvelt og allan þennan tíma höfum við verið í sjálfboðavinnu. Við Rósa leirum fugla nokkra mánuði á ári og það er okkar lifibrauð. Við getum borgað okkur rúmar 150 þúsund krónur á mánuði, það er nú allt og sumt. Við sjáum hins vegar fram á aðkallandi viðhald af þeirri stærðargráðu sem miðstöðin hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að tækla.“

Vilja nána samvinnu við Fjarðabyggð
Eins og segir í inngangi er Sköpunarmiðstöðin verkefni í byggðaþróun sem tekur til menntunar, menningar og atvinnuþróunar. „Hér á Stöðvarfirði vantar alla byggðafestu, það er enginn stór atvinnurekandi og stöðug fækkun er í barnaskólanum. Við höfum óskað eftir náinni samvinnu við Fjarðabyggð þar sem við í sameiningu vinnum að þessum þremur þáttum fyrir sveitarfélagið í heild sinni. Við stefnum að því að hér geti orðið fimmtán störf við rekstur, kennslu, framleiðslu og þjónustu, sem eflir um leið mannauð svæðisins. Við erum að skoða leiðir þessa dagana og erum í samtali við bæjarstjórnina. Við finnum fyrir jákvæðari viðhorfum en áður og erum þakklát fyrir það. Kannski er tími Sköpunarmiðstöðvarinnar kominn.“

Bara ein leið; áfram og upp
Una segist hafa brunnið fyrir verkefnið frá fyrsta degi en erfitt sé að halda í kraftinn í óbreyttu ástandi. „Undanfarið hefur þakið farið að leka enn meira og á meðan ekkert er fast í hendi varðandi fjármagn spyr maður sig eðlilega hvernig dæmið eigi að ganga upp. Mér var gefin þrautseigja í vöggugjöf, en það getur líka verið bölvun. Hingað til hef ég náð að hrista svona hugsanir af mér og ekki gefist upp, því í mínum huga er bara ein leið fær og hún er áfram og upp. Þó er alveg ljóst að eitthvað róttækt þarf að gerast því ástandið eins og það er núna er dauðadómur, byggingin liggur undir skemmdum.

Ég er samt vongóð og ef það fjármagn fæst sem til þarf getur verið komin öflug starfsemi í miðstöðina að fimm árum liðnum. Ef allt fer á versta veg og enginn verður aurinn, þá spái ég því að framtíðarkynslóðir reisi styttu af okkur þríeykinu. Er það ekki alltaf þannig?”











Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar