Mestur samfélagslegur ávinningur af Suðurleið

Vegagerðin telur Suðurleið fela í sér mestan samfélagslegan ávinning af þeim veglínum sem koma til greina frá væntanlegum Fjarðarheiðargöngum við Egilsstaði. Minni áhrif eru Seyðisfjarðarvegin þar sem smávægileg tilfærsla verður á veginum.

Þetta kemur fram í umhverfisskýrslu Vegagerðarinnar sem liggur fram til kynningar og athugasemda þessa dagana.

Árið 2020 var staðfest að gangamunni Héraðsmegin yrði við Dalhús á Eyvindarárdal, frekar en við Miðhús, nær núverandi vegi. Fyrir því voru þrenn meginrök. Í fyrsta lagi verða göngin þau ein lengstu í heimi og hefur Vegagerðin því leitast við að stytta þau, sem náðist með þessari aðferð. Í öðru lagi fælist í því meiri ávinningur fyrir samfélagið á Austurlandi þar sem frá Dalhúsum væri styttra niður á firði. Í þriðja lagi yrði af því minna ónæði og lýti á framkvæmdatíma.

Í frummatsskýrslu sinni það sama ár gerði Vegagerðin fyrir þremur veglínum við Egilsstaði, Norðurleið, Miðleið og Suðurleið. Ekki eru á þeim breytingar og niðurstaðan sú sama nú og þá, að mælt er með Suðurleiðinni en nánari greining á þeirri niðurstöðu.

Að beiðni Skipulagsstofnunar gerir Vegagerðin nú stuttlega grein fyrir núllkosti, að tengja göngin beint við núverandi veg um Fagradal með brú yfir Eyvindará við gangamunnann. Vegagerðin telur það ekki koma til greina því nauðsynlegt sé að færa núverandi veg um Egilsstaðaháls sem sé brattur með beygjum efst og neðst sem reynist stundum erfiðar að vetri til.

Leiðarlýsingar

Miðleið og Suðurleið eru þeir kostir sem víkja minnst frá núverandi leið. Miðleiðin felur aðeins í sér nýjan veg frá göngunum niður að Egilsstöðum, alls 4,1 km langan. Með henni yrði umferðin óbreytt í gegnum bæinn, niður Fagradalsbraut.

Með bæði Suðurleið og Miðleið yrði gerð ný brú yfir Eyvindará við gangamunnann og vegurinn myndi þaðan fylgja Eyvindará að mestu, það er færður af hálsinum niður til norðurs (út eftir). Með þessu fæst jafnari hæð á veginn og meira öryggi.

En í stað þess að fara niður Fagradalsbrautina kæmi vegur sem lægi suður fyrir (inn og ofan) þéttbýlið. Leiðin yrði því 6,9 km löng. Til að minnka freistni þungaumferðar til að fara í gegnum bæinn yrði gerð vegtenging frá Suðurleiðinni inn í iðnaðarhverfið á Miðási. Eins er gert ráð fyrir tengingu við íbúðabyggðina í Selbrekku.

Með Norðurleiðinni er gert ráð fyrir að núverandi Fagradalsvegur myndi sveigja í átt að göngunum með nýrri brú fyrir ofan þau, fylgja síðan Eyvindaránni út þeim megin áður en hann sveigði niður með henni og þveraði hana á ný með brú við Melshorn, ofan flugvallarins og tengdist þar á veginn yfir Egilsstaðanes.

Norðurleiðin er lengst, 10,1 km. Hún er líka dýrust, kostar 4,6 milljarða en Miðleiðin 2,7 og Suðurleiðin rúma þrjá milljarða. Í síðarnefndu leiðunum er tekinn með í reikninginn bráðabirgðabrú sem gera þyrfti yfir Eyvindará á framkvæmdatímanum.

Vill beina umferðinni frá Fagradalsbraut

Þótt Vegagerðin taki fram að Mið- og Suðurleið komi best út myndast sú tilfinning við lestur skýrslunnar að valið standi í raun frekar milli Norður- og Suðurleiðarinnar. Snýr það einkum að umferðaröryggi sem byggist mikið á að hægt verði að minnka þungaumferð um Fagradalsbraut. Miðleiðin gerir það ekki en Suðurleiðin nær því og Norðurleiðin jafnvel enn frekar. Byggir það meðal annars á umferðargreiningum sem unnar voru með myndavélum síðasta sumar þar sem reynt var að meta ferðamynstur bifreiða á svæðinu.

Með nýjum leiðum framhjá Egilsstöðum myndi Fagradalsbrautin teljast innansveitarvegur en ekki lengur stofnvegur og umsjón hennar þar með færast frá Vegagerðarinnar til sveitarfélagsins Múlaþings. Í skýrslunni segir að sveitarfélagið hafi rýmri leiðir heldur en Vegagerðin til að lækka hámarkshraða eða setja upp hindranir. Í skýrslunni er gerð grein fyrir mögulegum úrbótum á leiðinni, einkum mótum brautarinnar við Tjarnarbraut og Tjarnarás þar sem horft er til þess að setja undirgöng ofan við gatnamótin.

Umferðarútreikningarnir gera ráð fyrir 4.100 ökutækjum á sólarhring um Fagradalsbrautina með Miðleiðinni. Þeim myndi fækka í 3.500 með Suðurleiðinni en reiknað er með að umferð fólksbíla færi enn mikið niður hana. Með Norðurleiðinni er umferðin talin fara niður í 2.500 þar sem umferð frá fjörðunum, sem ætti ekki erindi inn í miðbæ Egilsstaða heldur til dæmis flugvöllinn, kysi hana frekar.

Ferðatími, skipulag og annað öryggi

En þótt Norðurleiðin skili líklega bestum árangri við að leiða umferðina frá Fagradalsbrautinni er hún að öðru leyti talin óöruggust fyrir vegfarendur. Er þar meðal annars vísað til staðsetningar umferðaróhappa sem orðið hafa á núverandi vegum. Við þetta bætist að ferðatími til Egilsstaða frá fjörðunum lengist með Norðurleiðinni en Miðleiðin er fljótförnust.

Norðurleiðin er sögð vegtæknilega flóknust. Þar er bent á hæðarlegu leiðarinnar en líka nálægð við önnur mannvirki en færa þarf fjögur möstur í Eyvindarárlínu vegna hennar. Þá telur Vegagerðin verða þröngt um vegamót við Borgarfjarðarveg.

Þá er bent á að núverandi skipulag Egilsstaða geri ráð fyrir uppbyggingu utan Eyvindarár, á vegsvæði Norðurleiðarinnar. Verði það að veruleika muni vegurinn kljúfa það svæði í sundur og þar með sé aftur komið upp vandamálið með Fagradalsbrautina, að það kljúfi þéttbýli í sundur. Suðurleiðin fer hins vegar framhjá núverandi skipulagssvæði og er því talin ramma byggðina vel inn.

Vegagerðin tekur fram að við útreikningana sé ekki tekið tillit til mögulegs framtíðarskipulags á svæðinu en meðal annars hefur verið rætt um legu veganna í samhengi við framtíðarland undir íbúabyggð á Egilsstöðum og nýja Lagarfljótsbrú. Í öllum samanburði í skýrslunni er hún áfram á núverandi stað.

Fleiri þætti má lesa út úr skýrslunni. Til dæmis að mun fleiri landeigendur eru á Norðurleiðinni þar sem meðal annars er farið um land Steinholts, Miðhúsa og Eyvindarár til viðbótar við Dalhús og Egilsstaði auk lands í eigu Múlaþings í hinum leiðunum.

Við bætist að þegar horft sé til umhverfisþátta svo sem áhrifa á gróðurs og ásýndar landslags hafi Norðurleiðin mest neikvæð áhrif. Miðleiðin hefur minnst áhrif, enda fylgir hún mest núverandi vegi. Þegar þetta er svo allt metið er það niðurstaða Vegagerðarinnar að Suðurleiðni sé besti kosturinn Héraðsmegin.

Nýr vegur talinn æskilegur Seyðisfjarðarmegin

Minna púðri er eytt í að gera grein fyrir veglínunum Seyðisfjarðarmegin, þar sem munninn á að vera við hlið Gufufossar í um 130 metra hæð. Þaðan koma til greina tveir kostir, annars vegar styrking núverandi vegar eða ný lína ögn norðar.

Vegagerðin mælir með nýju línunni þar sem hún feli í sér meira umferðaröryggi vegna minni bratta. Á móti þarf að færa golfvöll Seyðisfjarðar. Reiknað er með að núverandi vegi niður í fjörðinn yrði viðhaldið sem þjónustuvegi fyrir athafnasvæðið þar innst, meðal annars yrði gerð undirgöng undir nýja vegin að hesthúsahverfinu.

Eldri vegur upp á Fjarðarheiði yrði tengdur nýja veginum með T-gatnamótum. Þar er gert ráð fyrir hringtorgi síðar til að tengjast væntanlegum göngum til Mjóafjarðar, en það yrði ekki byggt fyrr en göngin yrðu tilbúin. Gamli vegurinn myndi þjóna skíðasvæðinu í Stafdal. Þá yrði vegurinn yfir Fjarðarheiði áfram opinn sem sumarvegur.

Í kjölfar skriðufallanna á Seyðisfirði í desember 2020 var óskað því við Veðurstofu Íslands að meta sérstaklega ofanflóðahættu á veginum. Niðurstaða hennar er að með varnaraðgerðum í Bjólfi og eftir skráðum heimildum þyrfti aftakaflóð þannig að snjóflóð færi yfir vegin. Áhætta af völdum aurskriðna er talin ásættanleg, samkvæmt norskum staðli. Ekki er talin skriðuhætta Héraðsmegin.

Nýja leiðin yrði 3,5 km löng og myndi kosta 1,2 milljarða samanborið við lagfæringu á núverandi vegi á 2,8 kafla sem myndi kosta 700 milljónir. Kostnaður við göngin sjálf er talinn 41 milljarður á verðlagi í desember 2021. 

Mögulegar veglínur frá Fjarðarheiðargöngum. Mynd: Vegagerðin/VSÓ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.