Mestur snjór í Neskaupstað og á Seyðisfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jan 2025 10:32 • Uppfært 20. jan 2025 10:33
Ekki hafa enn borist tíðindi af snjóflóðum á Austfjörðum eftir nóttina. Seinni hluta nætur dró úr úrkomu en von er á annarri sendingu síðar í dag.
Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn, segir að nóttin hafi verið tíðindalaus hjá lögreglu og almannavarnanefnd. Ljóst er að töluvert hefur snjóað, einkum á Seyðisfirði og í Neskaupstað.
Almannavarnir á Austurlandi funda með Veðurstofunni klukkan 10:30. Að þeim fundi er frekari upplýsinga að vænta um framhaldið. Appelsínugul viðvörun er á Austurlandi fram yfir hádegi en á Austfjörðum til miðnættis.
Óvissustig er í gildi vegna snjóflóða á Austfjörðum almennt en hættustig á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Þar eru samtals um 170 manns að heiman eftir rýmingar í gær.
Alls eru um 240 viðskiptavinir Rarik án rafmagns, flestir á Stöðvarfirði en einnig í dreifbýli í Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Berufirði og Álftafirði. Erfiðlega gengur að koma viðgerðarflokkum á staðina. Á Suðurfjörðum er mikill snjór, þótt hann sé minni en spáð var. Fleiri en eitt snjóflóð féllu í eða í kringum Hvalnesskriður í gær. Minnst eitt náði niður á veg og því þarf að moka í burtu.
Flestar leiðir á Austurlandi eru ófærar en víða unnið að mokstri, meðal annars á Fagradal. Skólahald hefur verið fellt niður á Norðfirði, Stöðvarfirði og Vopnafirði. Sorphirða og almenningssamgöngur raskast. Lögreglan beinir almennt til fólks að vera ekki meira á ferðinni en nauðsynlegt er.
Áfram mun snjóa nokkuð í dag, einkum út til stranda og upp til fjalla. Von er á öðrum úrkoma seinni partinn, einkum yfir norðanvert svæðið. Undir miðnætti styttir af alvöru upp og útlit er fyrir skaplegra veður næstu daga.
Frá Seyðisfirði í nótt. Mynd: Daniela Webrová