Orkumálinn 2024

Metafköst í frystihúsi LVF á Fáskrúðsfirði

Í frystihúsi Loðnuvinnslunnar (LVF) á Fáskrúðsfirði hefur lífið gengið umfram sinn vanagang, ef þannig er hægt að komast að orði um góðan árangur.  Á dögunum var slegið met í afköstum frystihússins þegar 230 tonn af fiski voru unnin á 42 klukkustundum.  Hafa aldrei jafn mörg tonn farið í gegn um vinnsluna á jafn skömmum tíma.


Þetta kemur fram á vefsíðu Loðnuvinnslunnar en þar er vitnað í Þorra Magnússon framleiðslustjóra sem er sáttur með árangurinn og segir þetta afar ánægjulegt og ekki síst vegna þess að innan þessara 42 klukkustunda hefði verið 4-5 klukkustunda bilun í vélbúnaði. 

Þorri segir einnig að fyrst og fremst væri þetta starfsfólkinu að þakka. “Hér er hörkumannskapur,” segir hann og ítrekaði það aftur:

“í fyrsta lagi hörku mannskapur, síðan bættur búnaður og gott hráefni er grundvöllurinn að þessu góða gengi,” bætir hann við. 


Á vefsíðunni segir að aflinn sem unnin er í frystihúsinu kemur af Ljósafelli, Sandfelli og Hafrafelli, auk þess sem að keyptur hefur verið afli af Sigurði Ólafssyni SF á Höfn. Segir Þorri að jafnan þyrfti að kaupa hráefni á fiskmarkaði til viðbótar við það hráefni sem fley LVF koma með að landi, slík er orðin framleiðslugeta frystihússins. 

Sífelldar endurbætur eru í gangi í frystihúsinu, aukin tækni og búnaður sem gerir það að verkum að aukning í framleiðni er stöðug. 

“Ég hef þá sýn að ekki séu ýkja mörg ár í að við tökum 10 þúsund tonn af bolfiski í gegn um húsið, það eru bara nokkur misseri í það” segir Þorri þegar hann er inntur eftir framtíðarsýn. 

Þegar vel gengur og afköst eru mikil skilar það sér líka í launum starfsmanna, bónusinn ríkur upp og fólkið sem vinnur verkin fær aukin laun, svo ekki sé nú minnst á kökuna sem boðið var upp á í tilefni árangursins.  Gott er að launa gott með góðu, að því er segir á vefsíðunni.

Mynd: Kakan sem boðið var upp á./lvf.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.