Mikil eftirspurn eftir sumarbústöðum á Austurlandi

Mjög mikil eftirspurn er nú eftir sumarbústöðum á Austurlandi en framboð af slíkum eignum er ekki til staðar. Samhliða aukinni eftirspurn hefur verðið hækkað töluvert eða um 25% frá í fyrra.

Þórdís Pála Reynisdóttir fasteignasali hjá Lindin fasteignasala segir að hún hafi auglýst sumarbústað til sölu nýlega og að áhugasamir kaupendur...“hafi næstum hangið á hurðahúninum“ eftir að sú auglýsing birtist.

„Það fóru síðan nokkrir af þessum áhugasömu kaupendum á biðlista hjá okkur og við höfum fengið þó nokkrar fyrirspurnin í hverri viku í sumar þar sem spurt er um sumarbústaði til sölu,“ segir Þórdís Pála. „En það er enginn að selja svona eignir í augnablikinu.“

Þórdís segir að þessari auknu eftirspurn fylgi verðhækkanir. „Verðið á sumarbústöðum í fjórðungnum hefur hækkað um 25% frá því í fyrra,“ segir hún.

Þá kemur fram í máli Þórdísar að einnig sé töluvert um að brottfluttir íbúar frá Austurlandi hafi spurt um litlar íbúðir til sölu sem þeir vilja nota sem sumarhús.

„En það er sama sagan hvað þessar litlu íbúðir varðar. Almennt eru slíkar eignir ekki til sölu þessa dagana,“ segir Þórdís. „Staðan hvað framboð á húsnæði almennt varðar er staðan ívið skárri niður á fjörðunum en upp á Héraði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.