Mikil úrkoma í kortunum á Austfjörðum
Gul veðurviðvörun er áfram í gildi á Austfjörðum en spáð er mjög mikilli úrkomu þar í dag. Á kortinu sem fylgir með þessari frétt má sjá stöðuna eins og hún er talin verða um fjögurleytið.Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofunni segir m.a. að tæpir 60 mm af regni hafi mælst í Neskaupstað í nótt. Miðað við framangreint kort má búast við enn meiri úrkomu á þeim slóðum í dag.
Hvað veðurviðvörunina varðar segir á vefsíðu Veðurstofunnar: „Talsverð eða mikil rigning. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum. Einnig er aukið álag á fráveitukerfi. Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.“