Miklar annir hjá björgunarsveitum um allt Austurland
Bílar fastir á Fagradal, fok á lausamunum, tré rifnaði upp frá rótum og bátur losnaði frá bryggju. Það voru miklar annir hjá björgunarsveitum víða á Austurlandi í dag.Í yfirliti yfir daginn frá Davíð Má Bjarnasyni upplýsingafulltrúa Landsbjargar segir að björgunarsveitir á Austurlandi hafi haft í nógu að snúast frá því rétt fyrir hádegi í dag.
„Verkefni dagsins byrjuðu að berast þegar óskað var eftir aðstoð viðbragðsaðila klukkan 11:22 vegna ökumanna bifreiða sem voru í vandræðum á Fagradal, milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða. Veður hafði versnað skyndilega og skollið á vonskuveður með snælduvitlausu roki og ísingu á veginum, vindurinn fór á köflum upp í 50 m/s," segir í yfirlitinu.
"Veginum var fljótlega lokað þegar hátt í 10 ökumenn höfðu lent í vandræðum og fest bíla sína eða lent út af veginum, einn bíll valt en slys á fólki voru minniháttar. Kyrrstæðir bílar færðust hreinlega til á veginum vindurinn var það mikill og lítið sem ekkert skyggni gerði aðstæður erfiðari en ella.
Fjöldi viðbragðsaðila tók þátt í þessum verkefnum frá lögreglu, slökkviliði, sjúkraflutningum og björgunarsveitum beggja vegna Fagradals. Um klukkan 13 var aðgerðum að mestu lokið og búið var að ganga úr skugga um að ekki væri fleira fólk í vanda á Fagradal, bílar voru skildir eftir og fólki komið til byggða.“
Bátur losnaði frá bryggju
„Á sama tíma fór björgunarsveit að aðstoða fólk í bíl á Öxi sem var í vandræðum vegna lélegs færis og skyggnis, þeim var fylgt niður af fjallveginum. Klukkan 13:27 barst svo beiðni um aðstoð björgunarsveitar á Seyðisfirði, þar voru lausamunir farnir að fjúka ásamt því sem þakklæðning á einu húsi hafði losnað. Björgunarsveitarfólk sinnti þeim verkefnum og þurfti einnig að koma böndum á bát sem hafði losnað frá bryggju.
Þegar síðasti hópurinn sem verið hafði á Fagradal var á leið niður til Reyðarfjarðar klukkan 14:30 bárust tilkynningar um fok á lausamunum í bænum. Tré hafði rifnað upp með rótum og brotið glugga ásamt því að lausamunir höfðu tekið að fjúka á nokkrum stöðum. Björgunarsveitarfólk fór einnig rúnt um bæinn og gekk úr skugga um að ekki væri fleiri hlutir að fjúka.
Engar tilkynningar bárumst um fok á trampolínum og eru björgunarsveitir á Austurlandi í viðbragðsstöðu á meðan veðrið gengur yfir.“
Mynd: Landsbjörg.