Miklir erfiðleikar steðja að Tækniminjasafninu

Fram kemur í nýlegri fundargerð menningarnefndar Seyðisfjarðar að miklir erfiðleikar steðja nú að Tækniminjasafni bæjarins. „Er ljóst að fara þarf í mikla fjáröflunar- og skipulagsvinnu varðandi rekstur og faglega starfsemi safnsins,“ segir m.a. í fundargerðinni.

Skúli Vignisson formaður stjórnar Tækniminjasafnsins segir að COVID hafi farið verulega illa með fjárhag safnsins því gestakomum hafi snarfækkað og þar með tekjumöguleikum safnsins.

„Sem dæmi get ég nefnt að það tók alveg fyrir komu skemmtiferðaskipa í sumar en farþegar úr þeim höfðu verið tekjulind fyrir okkur,“segir Skúli.

Skúli nefnir einnig að mikil og uppsöfnuð viðhaldsþörf sé til staðar á húsakosti safnsins.

„Þetta eru gömul hús og sum verulega komin til ára sinna og þar hefur engu viðhaldi verið sinnt í sumum tilvikum áratugum saman,“ segir hann. „En þessi hús hafa bæði menningarlegt og sögulegt gildi og þeim ber að halda við að okkar mati.“

Aðspurður um hvernig stjórnin hafi brugðist við vandanum segir Skúli að þeir hafi sótt um styrki til rekstursins m.a. til menntamálaráðuneytisins. Þá hafi þeir farið í einskipti aðgerðir eins og að selja fasteignir frá sér en það séu ekki langtímalausnir.

„Það er bæjarstjórn sem veitt hefur okkur styrki hingað til en þar er ekki á vísan að róa í augnablikinu vegna erfiðrar stöðu bæjarsjóðs,“ segir hann.

Einnig kemur fram í máli hans að leitað verði allra lausna til að halda safninu gangandi og komið verði í lengstu lög í veg fyrir að loka þurfi safninu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.