Milljóna króna dagsektir felldar niður standi forsprakkar Móglí við sitt
Milljóna króna dagsektir Heilbrigðiseftirlits Austurlands verða að fullu felldar niður gagnvart fyrirtækinu Móglí ehf. ef þeir standa við að hreinsa að fullu olíumengaðan jarðveg á lóðum Strandgötu 59 og 61 á Eskifirði. Skal hreinsun vera lokið eigi síðar en þann 15. nóvember næstkomandi.
Þetta var niðurstaðan á síðasta fundi stjórnar heilbrigðiseftirlitsins en eftir að hafa virt áskoranir eftirlitsins að vettugi um tæplega eins og hálfs árs skeið höfðu forsvarsmenn Móglí loks samband fyrir nokkru og létu eftirlitinu í té verkáætlun um hreinsun beggja lóða. Kom sú áætlun í kjölfar úttektar verkfræðistofunnar EFLU á umfangi olíumengunarinnar á lóðunum tveimur. Mengun sem nágrannar hafa ítrekað kvartað yfir um langa hríð.
Snérist málið um leka úr tveimur gömlum húsageymum sem lekið hafa það lengi að jarðvegur allur á lóðunum hefur verið mettaður af olíu um langt skeið. Lóðirnar standa nálægt sjó svo óttast var að olía myndi að lokum leka í hafið en ekki síður hafa nágrannar orðið fyrir miklum óþægindum vegna lyktarmengunar að auki. Eitt og hálft ár er liðið síðan heilbrigðiseftirlitið krafðist tafarlausra aðgerða af hálfu Móglí ehf. Vegna þessa og tæpt ár síðan 20 þúsund króna dagsektir voru lagðar á fyrirtækið meðan ekkert var að gert. Heildarupphæð sekta yfir tímabilið skjagar í fjórar milljónir króna.
Þær sektir falla þó dauðar niður ef hreinsun lóðanna og förgun geymanna verður lokið þann 15. nóvember næstkomandi. Kostnaður vegna úttektar EFLU og tillögugerð verður þó innheimtur hjá Móglí í kjölfarið. Standist tímasetningin ekki mun heilbrigðiseftirlitið láta vinna verkið á kostnað fyrirtækisins.