Minna á aðgát þrátt fyrir tilslakanir
Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi minnir á að áfram þurfi að huga að sóttvörnum þótt rýmkað verði á samkomutakmörkunum eftir helgi.Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar frá í dag.
Á mánudag verða samkomur leyfðar fyrir 200 manns í stað 100 eins og nú er auk þess sem aðeins er gert ráð fyrir að hægt þurfi að vera að tryggja eins metra bil milli óskyldra einstaklinga, í stað tveggja metra eins og nú er.
Þrátt fyrir tilslakanirnar minnir aðgerðastjórnin á að enn séu í gildi reglur sem hafi skilað góðum árangri. Minnt er á varkárni, sem fyrr, í samskiptum og að nýju reglurnar verði virtar og einstaklingar bæti við ef þurfa þykir.
Ekkert smit hefur greinst á Austurlandi frá 16. ágúst. Enginn er í einangrun né sóttkví.