Minni kvóti í makríl og kolmunna þýðir tekjutap upp á 30 milljarða króna
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. okt 2025 10:46 • Uppfært 02. okt 2025 10:47
Forstjóri Síldarvinnslunnar áætlar að alþjóðleg ráðgjöf um mun minni veiðar á makríl og kolmunna fyrir næsta ár þýði minni útflutningstekjur upp á 30-35 milljarða króna. Góð loðnuvertíð gæti vegið upp á móti verðmætunum en hætt er við að sumarið verði rólegt á Austfjörðum.
Alþjóðahafrannsóknaráðið kynnti í fyrradag ráðgjöf sína um veiðar á þremur alþjóðlegum deilistofnum: makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld. Góðu fréttirnar eru þær að lagt er til 33% hækkun á norsk-íslenskri síld en gallinn er að það er aukning um tæp 20.000 tonn úr 61.000 tonnum fyrir Íslendinga.
Það vegur lítið upp á móti niðurskurði í hinum tegundunum. Lagður er til 70% samdráttur í makríl, þannig að heildaraflinn fari úr 577 þúsund tonnum niður í 174 þúsund. Íslendingar hafa undanfarin 15 ár gjarnan veitt um 140-150 þúsund tonn á ári. Kvótinn í ár var 125 þúsund tonn.
Heildarkvótinn í makríl eins og hjá einni útgerð áður
Þetta þýðir að makrílkvóti næsta árs verður tæp 29 þúsund tonn en til samanburðar veiddu skip Samherja og Síldarvinnslunnar í sínu samstarfi um 30.000 tonn í ár. „Þessi kvóti sem við sjáum fram á er eins og hefur farið í gegnum eitt vinnsluhús á vertíð,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Makríllinn hefur mest verið veiddur í júlí og ágúst. Tilkoma hans fyrir tæpum 20 árum breytti íslenskri uppsjávarútgerð og varð hennar fjórða stoð. Honum hefur verið landað og hann unninn á svæðinu frá Þórshöfn í norðri til Vestmannaeyja í suðri. Gunnþór áætlar að þegar allt sé talið skapi makrílvertíð um 350-400 störf.
„Makríllinn er verðmætasta tegundin sem við höfum veitt og mikið högg þar er mjög dýrt. Það segir sig sjálft að það verður mikill samdráttur þessa mánuði,“ segir hann.
Makrílkvótinn álíka og árið 2022
Í kolmunna er lagður til rúmlega 40% niðurskurður. Kvóti Íslendinga síðustu tvö ár hefur verið um 300.000 tonn en dettur miðað við þetta niður í 173 þúsund tonn. Það er svipaður kvóti og árið 2022, sem var þá minnsta vertíðin í 10 ár, sem aftur er álíka mikið og unnið hefur verið í fiskimjölsverksmiðjunum í Neskaupstað og Eskifirði á einu ári.
Gunnþór áætlar að útkoman af tegundunum þremur þýði lækkun á útflutningstekjum upp á 30-35 milljarða. Þar bætist við minni tekjur starfsfólks sem aftur þýði lægri útsvarstekjur sveitarfélaga. Eins minnka tekjur hafnarsjóða og þjónustufyrirtækja í landi.
Nauðsyn að leita að loðnu
Helsta vonin er loðnan, sem ekki hefur veiðst síðastliðin tvö ár. Nánari veiðiráðgjafar er að vænta í kringum næstu mánaðamót en fyrir liggja tillögur um 50.000 tonna byrjunarkvóta eftir góðar mælingar á ungloðnu.
„Slíkur kvóti hefur ekki alltaf legið fyrir síðustu ár þannig að það er góð byrjun en við bíðum eftir frekari niðurstöðu. Við hljótum að leggja okkur fram um að leita að loðnu því góð loðnuvertíð getur mildað höggið.“
Ljóst að fyrirtækin þurfa að bregðast við tekjumissi og kostnaðaraukningu
Gunnþór telur þó að stjórnendur uppsjávarútgerða séu þungt hugsi þessa dagana yfir viðbrögðum vegna veiðiráðgjafarinnar og annarra breytinga í rekstrarumhverfinu. Í byrjun vikunnar tilkynnti Síldarvinnslan að ákveðið hefði verið að leggja togurunum Jóhönnu Gísladóttur GK og Gullveri NS en gera í staðinn út Birting NK.
„Ég get ekki talað fyrir alla en ég trúi að flestir stjórnendur séu að fara yfir hvar sé hægt að gera betur í rekstri eða bíða með framkvæmdir. Heimili sem verður fyrir tekjumissi eða kostnaðarhækkunum þarf að bregðast við þeim og því er ekkert öðruvísi farið um fyrirtæki. Við höfðum boðað hagræðingaraðgerðir vegna hærri kostnaðarliða, til dæmis veiðigjaldanna. Það er augljóst þegar svona tíðindi koma að það þarf að slá enn frekar í klárinn.“