Minni tekjur en meiri kostnaður kallar á lántöku Vopnafjarðarhrepps
Tekjur Vopnafjarðarhrepps voru minni en ráð var gert fyrir á árinu og að sama skapi reyndust framkvæmdir, þar sérstaklega endurnýjun gatna, mun dýrari biti en áætlun gerði ráð fyrir. Þess vegna hefur hreppurinn samþykkt að taka 200 milljón króna lán frá Lánasjóði sveitarfélaga.
Sveitarstjórn öll samþykkti lánsumsóknina á fundi fyrir helgina en til tryggingar standa tekjur sveitarfélagsins. Lánið er til loka ársins 2055.
Aðspurður út í hvers vegna sveitarfélagið hafi lagst í tiltölulega stóra lántöku á þessum tímapunkti segir Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri, að til komi sérstaklega tvennt.
„Það sem skýrir þessa ákvörðun er kannski fyrst og fremst gatnagerð sem lagt var af stað með í haust. Þar um að ræða malbikun á tveimur götum hér en jafnframt skipt um allar lagnir en verkið reyndist töluvert umfangsmeira en lagt var upp með. Þetta verk var líklega vanáætlað frá upphafi, sem var áður en ég kom hér til starfa, en eins og oft er þegar svona verk er hafið þá bætist gjarnan ofan á þegar til kemur. Þarna kom til dæmis í ljós að skipta þurfti um miklu meiri jarðveg en fyrirséð var. Þetta gamlar götur og jarðvegurinn reyndist of ríkur af mold svo ástæða þótti til að skipta um mun meiri jarðveg en ella hefði verið þörf á.“
Hitt verkefnið eru þær miklu framkvæmdir við Vopnafjarðarhöfn sem hreppurinn hefur staðið í og heldur því áfram. Góð loðnu- og eða makrílvertíð hefur áhrif á fjármagnið sem ætlað er til þess að og útkoman í báðum tilfellum verulega undir því sem vonast var eftir.
„Svo eru það þessar hafnarframkvæmdir sem kosta um hundrað milljónir þó okkar hluti hér sé aðeins tæplega fimmtíu miljónir. Þar áformaðar frekari framkvæmdir á næsta ári þó þær séu ekki nákvæmlega tímasettar enn sem komið er. Það er auðvitað settur fyrirvari um komandi loðnuvertíð. En svo er líka að koma í ljós, sem við svo sem áttum von á, að tekjur okkar af höfninni voru umtalsvert minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar munar um fjármuni á bilinu 40 til 70 milljónir króna eða svo.“
Valdimar ítrekar þó að 200 milljóna króna lántaka til langs tíma sé ekki að setja neitt í uppnám. Hreppurinn standi almennt ágætlega og ráði vel við lántöku sem þessa.