Minningarathafnir um snjóflóðin bæði í Neskaupstað og Reykjavík
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. des 2024 08:13 • Uppfært 19. des 2024 16:13
Í dag eru 50 ár síðan tvö snjóflóð, sem kostuðu 12 mannslíf, féllu í Neskaupstað. Haldnar verða minningastundir bæði í Neskaupstað og í Reykjavík vegna þess í dag.
Snjóflóðin féllu um klukkan 13:50 föstudaginn 20. desember árið 1974. Það fyrsta sem flestir íbúar urðu varir við var þegar rafmagnið fór af bænum, enda slitnuðu raflínur til bæjarins í hamförunum.
Fljótlega varð ljóst að tvö snjóflóð höfðu fallið inn í byggðinni, inn á Strönd. Annað á svokölluðu Mánasvæði kennt við íbúðarhús sem eyðilagðist í flóðunum, hitt á þáverandi athafnasvæði Síldarvinnslunnar, sem minningarreitur er í dag.
Flóðið á athafnasvæði Síldarvinnslunnar féll nokkrum mínútum á undan því sem féll á Mánasvæðið. Það er eitt efnismesta snjóflóð sem fallið hefur á íbúabyggð í Evrópu. Tólf manns fórust í flóðunum, þar af tvö börn. Það olli líka mikilli eyðileggingu og tók bæði tíma og mikla vinnu að koma starfsemi Síldarvinnslunnar aftur á rétt ról.
Snjóflóðanna og þeirra sem fórust er reglulega minnst, en athafnirnar eru umfangsmeiri í ár en oft áður þar sem 50 ár eru liðin frá atburðunum.
Klukkan 17:00 hefst minningarstund í Norðfjarðarkirkju. Séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir og Benjamín Hrafn Böðvarsson leiða stundina. Kór Norðfjarðarkirkju syngur og tónlistarfólk úr Neskaupstað spilar.
Eftir athöfnina, eða um klukkan 18:00 verður ljósastund við minningarreit um þau sem fórust í flóðinu en hann er staðsettur við snjóflóðavarnargarðinn innst í bænum. Gengin verður ljósaganga eftir snjóflóðagörðunum að Safnahúsinu þar sem í boði verða léttar veitingar.
Norðfirðingafélagið í Reykjavík stendur fyrir samverustund í Fella- og Hólakirkju klukkan 20:00. Þar verður lesið upp úr bók Loga Kristjánssonar og Ólafar Þorvaldsdóttur „Fjall í fangið“. Bókin kom út í nóvember og fjallar um þau 11 ár sem þau bjuggu á Norðfirði þar sem snjóflóðin eru þungamiðjan. Logi var bæjarstjóri þegar þau féllu og stýrði aðgerðum í kjölfarið. Völusteinar spila tónlist og Ólafur Viggósson les upp ljóð.