Minntist tengdamóður sinnar í ræðu um brjóstakrabbamein
Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður frá Eskifirði, minntist tengdamóður sinnar í þingræðu í síðustu viku um leið og hún vakti athygli á mikilvægi þess að landsmenn nýti sér skimanir sem í boði eru fyrir krabbameinum.
Hildur Metúsalemsdóttir var 65 ára þegar hún lést úr krabbameini árið 2011. Eydís tileinkaði ræðuna henni en hún kvaddi sér hljóðs undir liðnum störf þingsins síðasta miðvikudag. Það var bleiki dagurinn, sem tileinkaður er konum sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum þeirra.
Hildur barðist við krabbameinið í 11 ár. „Minning hennar lifir með fjölskyldu og vinum sem tákn um styrk, kjark og óbilandi von. Ég minnist hennar og allra þeirra sem háð hafa þessa baráttu. Við stöndum saman í baráttunni við krabbamein nú sem aldrei fyrr,“ sagði Eydís.
Hún sagði daginn ekki bara áminningu um stuðning og von, heldur líka forvarnir og skimanir. „Við vitum að snemmtæk greining getur bjargað lífi. Þess vegna skiptir máli að mæta þegar boð berast í skoðun, hvort sem það er í leghálsskimun, brjóstaskoðun eða ristilskimun.
Það tekur stuttan tíma en getur haft áhrif til lífstíðar. Við vitum aldrei hver verður næstur og þess vegna skiptir hvert skref, hver skimun og öll þessi vitundarvakning miklu máli.“