„Mögulegt að Samar hafi verið hluti af þeim sem fyrstir komu til Íslands“

Fornleifarannsókninni í Stöð á Stöðvarfirði er lokið í sumar og vinna nú fornleifafræðingar að úrvinnslu þess sem fannst í uppgreftrinum í sumar sem og skýrsluskrifum á niðurstöðum rannsóknarinnar.

Bjarni F. Einarsson leiðir rannsóknina á Stöð í Stöðvarfirði og segir hann margt athyglisvert vera að koma í ljós. „Gripaflóran á milli eldri og yngri skálans er ekki sú sama. Við fundum gripi í yngri skálanum sem eru ekki að finnast í eldri skálanum enn sem komið er. Þar ber helst að nefna gripi sem tengjast tóvinnu, og því ljóst að í yngri skálanum var vefnaður orðinn hluti af hinu dagalega lífi. Eldri skálinn virðist vera útstöð og sá yngri landnámsbær. Það sem er athyglisvert er að við finnum sömu gripina í yngri skálanum og í þeim eldri en ekki öfugt, þ.e.a.s. margar gripategundir sem finnast í þeim yngri finnast ekki í þeim eldri. Það gæti bent til þess að sama fólkið hafi búið í útstöðinni og í landnámsbænum,“ segir Bjarni.

Meðal gripa sem fundust í báðum skálunum eru skífur, sem ekki liggur ljóst fyrir til hvers voru brúkaðar, sem og önnur áhöld. Bjarni hefur kenningar um að skífurnar hafi verið notaðar í lýsisgerð. Þá fundust í báðum skálunum japis-steinar sem notaðir voru til að skera, skrapa og hefla auk eldsláttusteina. „Þetta var þekking sem ekki þekkist víða og að finna þessa muni í báðum skálunum ýtir frekar undir að um sama fólkið sé að ræða í báðum skálunum. Þessi þekking er gjarnan rakin til Sama en á undanförnum árum hefur komið í ljós að samskipti Sama við aðra norræna menn voru meiri en áður var talið. Þessi þekking tengist þeim og því mögulegt að Samar hafi verið hluti af þeim sem fyrstir komu Íslands. Hvort sem þeir hafa sest hér að sjálfir, verið þrælar eða slíkt,“ segir Bjarni.

„Ég tel fullvíst að uppgröfturinn á Stöð sé að gefa okkur nýja sýn á landnám Íslands. Það að höfðingjar hafi verið með útstöð hér áður en þeir settust hér að. Ég tel að það séu einnig vísbendingar um það í Landnámu. Hún er skrifuð nokkuð löngu eftir landnámið sjálft eða á 12. öld. Þegar rýnt er í hana þá má sjá að Ingólfur Arnarson er víða um land og Hrafna-Flóki er sagður ætla af landi brott vegna þess að hann gleymdi að heyja. Það er náttúrlega algjör vitleysa en það sem sjá má er að mögulega er eitthvað minni sem höfundurinn er að skrifa eftir. Minni um það a fólk hafi verið að brasa hér á landi ýmislegt áður en það settist hér að,“ segir Bjarni.

Bjarni telur þörf á frekari rannsóknum á svæðinu við Stöð í Stöðvarfirði og þá mannvirkjum sem tengjast yngri skálanum. Hann er einnig bjartsýnn á að finna megi naust við skálana þar sem haf mætti landi neðan við skálana. „Ég er nokkuð viss um að finna megi naustir nærri Stöð. Menn hafa ekki látið skipið sem þeir komu á standa úti og eyðileggjast heldur tel ég að byggt hafi verið yfir það og það verndað. Enn hafa engar naustir verið fundnar frá landnámstímum. Ég gróf upp eina hugsanlegt naust slíka við Reyðarfjörð, í landi Hólma sem nú eru í landi Sómastaða. Við gátum þó ekki sannað að það væri naust, en ég er bjartsýnn á að finna og grafa upp naust í Stöðvarfirði,“ segir Bjarni að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.