„Mörg mikilvæg byggðamál eru í grunninn neytendamál“
Neytendasamtökin eru nú fyrsta sinni á ferð um landið til þess bæði að kynna sig og sína starfsemi fyrir sveitarstjórnum á landsbyggðinni en ekki síður til að eiga samtal við almenning um þau neytendamál sem á þeim brenna.
Síðdegis í dag verður einn slíkur fundur á Hótel Héraði á Egilsstöðum en þegar hafa samtökin átt sams konar fundi á fimm öðrum stöðum á landinu og fundirnir alls átta samtals áður en hringnum lýkur.
Aldrei verið gert áður
Aðspurður um tilgang þess að fara hring um landið sem samtökin aldrei gert áður segir Breki Karlsson, formaður samtakanna, að ekki sé síður mikilvægt að hlusta á raddir fólks annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu og í tilfellum jafnvel enn mikilvægara. Þó vissulega sé auðvelt að ímynda sér að margir hlutir séu verri á landsbyggðinni frá neytendasjónarmiði jafnist ekkert á við að heyra persónulegar sögur og fregna jafnvel af einu og öðru sem fáir hafa leitt hugann að.
„Meginástæðan er sú að fjölmörg mál sem flokkast gjarnan sem byggðamál úti á landsbyggðinni eru í grunninn oft bara neytendamál. Við þegar fengið nasaþef af því á fundum okkar hingað til því það er ákveðnir punktar sem fram hafa komið á öllum fundunum. Við heyrum um fákeppni, hátt raforkuverð, landflutninga, vöruverð og vöruúrval, skort á verslunum og ýmislegri þjónustu og auðvitað eldsneytisverðið svo fátt sé nefnt. Þetta hefur allt brunnið á fólki hvar sem við höfum komið.“
Öflug samtök skapa pressu
Breki segir að í kjölfar slíkrar fundaferðar eigi samtökin auðveldara með að koma áhyggjum neytenda á landsbyggðinni á framfæri sem hugsanlega leiði til þess að hlutir breytist til batnaðar.
„Neytendasamtökin eru öflug samtök og við getum beitt þrýstingi í ýmsum málum enda situr fólk frá okkur í ýmsum nefndum og ráðum. Þá höfum við komið málum áfram til Samkeppniseftirlitsins þar sem grunur leikur á einhverju óeðlilegu. Þá berum við okkur eftir að mál fari í réttan farveg og gleymist ekki í kerfinu svo fátt sé nefnt.“
Fundirnir hafa allir verið vel sóttir að sögn Breka og hann vonast til að sjá sem flesta á fundinum í dag en sá hefst klukkan 17. Allir eru þangað velkomnir.
Samtökin funduðu með íbúum Akureyrar í Lystigarðinum í gær. Síðar í dag skal fundað á Egilsstöðum áður en ferðinni er heitið til Hornafjarðar. Mynd: Aðsend