Mótmæla harðlega breytingum á starfsemi bókasafna Fjarðabyggðar

Forstöðukonur allra sjö bókasafna Fjarðabyggðar mótmæla harðlega þeim breytingum sem bæjarstjórn samþykkti í síðasta mánuði þess efnis að færa bókasöfn sveitarfélagsins undir stjórn grunnskólanna á hverjum stað en öll eru söfnin staðsett í grunnskólum hvers bæjarkjarna. Þess er krafist að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Ákvörðun bæjarstjórnar er einn liður í því að einfalda rekstur sveitarfélagsins en í því skyni skal meðal annars sameina Safnastofnun og Menningarstofu Fjarðabyggðar og eftirleiðis verði aðeins einn stjórnandi yfir öllum menningarmálum í heild sinni. Stefnan verði í framtíðinni að fella störf allra safna að heildarmarkmiðum sem fyrir liggi og þannig nýtist þau með ríkari hætti í öllu menningar- og listalífi. Bókasöfnin falla þó ekki undir þau markmið.

Í bréfi sem allar sjö forstöðukonur bókasafnanna skrifa til bæjarstjórnar er ákvörðunin sögð endurspegla mikið metnaðarleysi í garð bókasafna svæðisins og enginn skilningur virðist vera á starfi þeirra og hlutverki.

„Ákvörðunin lýstir fullkominni vanþekkingu á starfsemi bókasafnanna. Í fundargerð bæjarráðs segir að að „flutningur bókasafna til grunnskóla hafi í för með sér betri nýtingu á safnkosti og skipulagi starfsemi sem heyri undir stjórn hverrar skólastofnunar.“ Það sem þarna er nefnt er þegar til staðar. Öll bókasöfn sveitarfélagsins eru samsteypusöfn og hafa verið það árum saman. [...] Við áteljum einnig forkastanleg vinnubrögð yfirvalda í þessu ferli og það virðingarleysi sem okkur er sýnt. Ekkert samráð var haft við forstöðumenn eða leitað eftir áliti þeirra. Fyrirhuguð breyting ekki kynnt þeim áður en ákvörðun var tekin.“

Líkt og annars staðar í sveitarfélaginu er bókasafn Fáskrúðsfirðinga staðsett í grunnskólanum í bænum. Með þeim hætti nýtast bókasöfnin bæði sem almennings- og skólabókasöfn. Mynd Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar